Hvað er að frétta?

543

Hvað er að frétta? Hvernig gengur á Hornafirði? Eru spurnigar sem við bæjarfulltrúar fáum oft frá einstaklingum á svæðinu og utan sveitarfélags. Á tímamótum sem áramótum er hollt og gott að rýna aðeins í stöðuna og skoða málin nánar.

Rekstur

Undirrituð hefur setið í bæjarstjórn frá því í júní 2010 og hefur rekstur bæjarsjóðs blessunarlega verið góður frá því fyrir þann tíma. Það eru forréttindi að fá að vera í forsvari fyrir sveitarfélag sem ekki þarf að berjast við fjárhagsvanda með rekstrarerfiðleikum eins og því miður á við um mörg sveitarfélög á Íslandi en það kemur ekki af sjálfu sér. 

Fjárfestingar og framkvæmdir þarf að stilla þannig af að þær ógni ekki rekstri sveitarfélagsins og þannig að þær séu sem hagkvæmastar og dragi helst úr rekstrarkostnaði frekar en auki hann.

Framkvæmdaplan á hverjum tíma er langtíma áætlun og getur það riðlast ýmissa hluta vegna en sem dæmi má geta þess að flestar þær framkvæmdir sem eru í gangi í dag komust á dagskrá hjá fyrri meirihluta og jafnvel fyrr eins og t.d. Sindrabær sem hefur verið lengi í endurbótaferli. Það má jafnvel segja alltof lengi en það helgast af aðstæðum í þjóðfélaginu, tilboði sem varð að hafna vegna þess að það var of hátt, heimsfaraldri og forgangsröðun í annað á tímabili. Til allrar lukku þá sér nú fyrir endann á endurbótunum og verður það stór og ánægjuleg stund þegar Sindrabær verðu tekinn í notkun aftur samfélaginu öllu til heilla.

Hjúkrunarheimilið er annað verkefni sem dregist hefur alltof lengi vegna annarra ástæðna en sér nú einnig fyrir endann á því og ný leikskólabygging sem unnið var að á síðasta kjörtímabili er einnig að verða tilbúin. Fráveituframkvæmdir eru einnig langtíma verkefni og styttist í að öll fráveitan fari í gegnum hreinisvirkið í Óslandi og verður það stór áfangi fyrir sveitarfélagið.

Íþróttamannvirki

Síðasta bæjarstjórn hafði forgangsraðað þannig að byrjað yrði á því að reisa viðbyggingu við sundlaug með aðstöðu fyrir líkamsrækt og gerðar yrðu nauðsynlegar endurbætur á sundlauginni samhliða sem miðast að bættri aðstöðu fyrir þá sem þurfa að nýta sér búningsklefa vegna fötlunar, þörf fyrir aðstoð eða vegna annarra persónulegra ástæðna.

Núverandi meirihluti kaus að leggja þau áform til hliðar, forgangsraða nýju íþróttahúsi og kalla eftir hugmyndum og óskum íþróttahreyfingarinnar til undirbúnings þess. Vinna þessi var í höndum byggingarnefndar nýs íþróttahúss á Höfn en hlutverk nefndarinnar var m.a. að „stýra vinnu og leita hagkvæmustu og bestu lausna við hönnun, byggingu og rekstur hússins“ eins og kemur fram í erindisbréfi nefndarinnar eða stýrihópsins https://www.hornafjordur.is/media/auglysingar/Erindisbref-bygginganefndar-nys-ithrottahuss.pdf.

Mikið af gögnum hafa verið lögð fram og má nálgast flest af þeim hér https://www.hornafjordur.is/thjonusta/ithrottir-og-tomstundir/uppbyging-ithrottamannvirkja/. Skjal með kostnaðarmati valkosta sem lagt var fram í bæjarráði 12. nóvember og birt með fundargerðinni gefur til kynna að allir valkostir (A, B og C) eins og þeir voru settir fram samkvæmt ítrustu óskum allra þeirra sem komið höfðu að vinnunni, voru kostnaðarmetnir hátt í 4 milljarða. Þó var ekki allt talið með í ölllum tillögunum svo þeir dýrustu A og B voru nær 5 milljörðum ef allt sem var í C valkosti væri tekið með. 

Til skýringar er A stakstætt íþróttahús við Víkurbraut án aðstöðu fyrir fimleika (þeir yrðu í núverandi íþróttahúsi við Heppuskóla), B stakstætt íþróttahús við Víkurbraut með aðstöðu fyrir fimleika og C íþróttahús sem viðbygging við núverandi íþróttahús tengt við sundlaug með millibyggingu þar sem komið væri fyrir innisundlaug.

Ljóst var í nóvember að þær teikningar sem unnið er með væru verkefni sem að u.þ.b. 2.700 manna samfélag á erfitt með að réttlæta framkvæmd á og var þá hafist handa við að skoða nýjar leiðir og endurmeta hvað þarf að vera í nýju íþróttahúsi til að ná kostnaði niður. Sem segja má að hafi alltaf verið fyrirsjánalegt því sníða þarf stakkinn þannig að hann setji ekki allt á hliðina. Kom þetta m.a. fyrir á kynningarfundum um fjárhalgsáætlun fyrir árið 2025 sem því miður fáir sóttu enda var boðað til fundanna með mjög stuttum fyrirvara.

Hagkvæmasta og besta lausnin!

Byggingarnefndinni eða stýrihópnum eins og hann er kallaður var m.a. falið að vinna að hagkvæmustu og bestu lausninni við hönnun, byggingu og rekstur hússins. Þrátt fyrir það tóku fulltrúar meirihlutans ákvörðun þann 12. desember sl. um að farið yrði í leið A, stakstætt íþróttahús við Víkurbraut og að núverandi íþróttahús verði að fimleikahúsi en fulltrúi B lista er fylgjandi því að byggt verði við núverandi íþróttahús, enda er það ódýrari framkvæmd og mun hagkvæmari fyrir rekstur sveitarfélagsins til lengri tíma þar sem góð tengsl eru milli íþróttamannvirkja í heild sem einfaldar starfsmannahald og býr einnig til góða tengingu milli íþróttamannvirkja og skólans.

Framhaldið

Varðandi byggingu nýs íþróttahúss er beðið eftir nýrri útfærslu frá starfsmönnum mannvirkjasviðs þar sem gefið var út í desember að byggingin skyldi einfölduð og taka skyldi mið af fjárhagslegri getu sveitarfélagsins. Það verður spennandi að sjá hvað kemur upp úr þeim hatti. Hvernig samráði við hagsmunaaðila verður háttað er ekki ljóst en það er allavega ljóst að við fulltrúar B lista munum hér eftir sem hingað til leggja okkar af mörkum til að vinna að leið sem tekur mið af þörf en er jafnframt hagkvæm bæði í byggingu og rekstri til lengri tíma.

Annars má segja að það gangi vel í sveitarfélaginu. Mikil uppbygging í gangi í atvinnulífinu, íbúum fjölgar og þá mest ungu fólki í dreifbýlinu. 

Fyrir hönd bæjarfulltrúa og nefndarfólks B lista vil ég óska íbúum Sveitarfélagsins Hornafjarðar gleðilegs nýs árs og þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða!

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, oddviti Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði.