Hvað er að frétta?
Þessi stutta en stóra spurning hefur hljómað mjög oft frá undirskrift samings um byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn í maí 2018.
Oft höfum við kjörnir fulltrúar getað komið með svör um hvar í ferlinu málið er og hvaða skref séu næst á dagskrá. Þó má segja að öll skref verkefnisins hafi tekið lengri tíma en áætlað hefur verið og hefur það reynt á þolrifin hjá okkur öllum.
Það var því mikið reiðaslag sl. þriðjudag þegar sveitarfélaginu barst afrit af bréfi heilbrigðisráðuneytisins til Framkvæmdasýslu ríkisins þar sem fram kemur að ráðuneytið leggi til að tilboðum í verkefnið verði hafnað, farið verði nánar yfir forsendur verkefnisins og kannað með hvaða hætti sé hægt að draga úr kostnaði þess.
Langt ferli
Fyrr í ferlinu hefur verkefnið verið rýnt m.t.t. kostnaðar og hafði framkvæmdasýslan mælt með því við bæði heilbrigðisráðuneytið og sveitarfélagið að gengið yrði að lægra tilboðinu og var bæjarráð tilbúið til að samþykkja það fyrir hönd sveitarfélagsins.
Frá því að þessi staða kom upp hafa bæði bæjarstjóri og kjörnir fulltrúar unnið að því að koma afstöðu sveitarfélagsins til skila við hina ýmsu aðila sem geta haft áhrif á málið og lagt áherslu á að frekari tafir á verkefninu verði sem minnstar.
Bæjarstjóri er í góðu sambandi við fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins og framkvæmdasýslunnar til að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin.
Svarið við spurningunni
Nýjustu fréttir eru því miður þannig að verkefnið ætlar enn einu sinni að tefjast en unnið er á öllum vígstöðvum að því að sú töf verði sem styttst.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs