Húsnæðismál og móttaka flóttafólks

518

Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið sl. föstudag 31. mars á Grand Hótel í Reykjavík. Að vanda var þingið vel sótt af sveitarstjórnarfólki og bæjar- og sveitarstjórum landsins.

Að þessu sinni vorum við þrjú frá Sveitarfélaginu Hornafirði, undirrituð auk Eyrúnar Fríðu Árnadóttur formanns bæjarráðs og Gauta Árnasonar forseta bæjarstjórnar.

Á Landsþinginu í ár var rætt um stöðu kjarasamningsviðræðna sambandsins, húsnæðismál og málefni flóttafólks og hælisleitenda. Skoða má upptöku af þinginu hér https://www.samband.is/vidburdir/landsthing-2023/

Húsnæðismál

Húsnæðismálin eru okkur hornfirðingum hugleikin þar sem skortur er á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og lóðaskortur. 

Það er því ánægjulegt að innviðaráðherra hefur nú staðfest nýja reglugerð um íbúakosningar sveitarfélaga og samþykkti bæjarráð í gær miðvikudaginn 5. apríl að hefja undirbúning að íbúakosningum um aðal- og deiliskipulag í Innbæ á grundvelli hennar. 

Það verður gott fyrir alla aðila að geta loksins afgreitt það mál í kosningum eins og óskað var eftir.

Annars er unnið að þéttingu byggðar við Sandbakkaveg og einkaaðilar vinna að deiliskipulagi sem fjölgar íbúðareiningum bæði í þéttbýli og dreifbýli.

Þá afgreiddi umhverfis- og skipulagsnefnd frá sér skipulagslýsingu vegna íbúðarsvæðis ÍB5 sl. mánudag sem bíður afgreiðslu bæjarstjórnar í lok mánaðarins. Fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar má nálgast hér https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=ZpjnmyvnrEOyCftNbmqa5w1&text=

Móttaka flóttafólks

Þann 13. janúar sl. undirritaði félagsmálastjóri fyrir hönd sveitarfélagsins samning um móttöku átta flóttamanna. Samningurinn byggir á samræmdri mótttöku flóttafólks en hann nær til fólks sem fengið hef­ur alþjóðlega vernd eða dval­ar­leyfi á grund­velli mannúðarsjón­ar­miða hér á landi. Mark­miðið er að tryggja flótta­fólki sam­fellda og jafna þjón­ustu óháð því hvaðan það kem­ur og í hvaða sveit­ar­fé­lagi það sest að. 

Eftir því sem undirrituð kemst næst hefur þegar verið tekið á móti átta einstaklingum og gengið afar vel. En óskað hefur verið eftir yfirferð í bæjarráði um málið, þ.e. framlagningu samnings, gang mála, skuldbindingar sveitarfélagsins og aðkomu ríkisins.

Þegar þessi pistill er skrifaður skín sólin á Höfn sem vonandi gefur góð fyrirheit um að vorið verði okkur gott hér í sveitarfélaginu. Með þá ósk í brjósti óska ég lesendum Leiðarhöfða gleðilegra páska!

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar, aðalmaður í bæjarráði og umhverfis- og skipulagsnefnd.