Þriðju mótmælin vegna tafa við byggingu nýs hjúkrunarheimilis á Höfn fóru fram á Skjólgarði í gær föstudag. Að frumkvæði íbúa Skjólgarðs hófust reglubundin föstudag mótmæli fyrir tveimur vikum síðan. Fyrstu mótmælin voru haldin af íbúum sjálfum, næst voru það starfsmenn og nú aðstandendur íbúa heimilisins. Bæjarstjóri tók þátt í mótmælunum að þessu sinni og þakkaði við það tilefni íbúum og aðstandendum fyrir hvatninguna.
Ferlið fram að þessu
Tafir á framkvæmdum eru til komnar vegna ýmissa þátta, hönnunin tók lengri tíma en áætlað var, sömuleiðis lokavinna við útboðsgögn og kostnaðaráætlun. Framkvæmdir voru boðnar út síðastliðið vor og bárust tvö tilboð sem voru bæði vel yfir kostnaðaráætlun. Báðum tilboðum var hafnað en samkvæmt lögum um opinber innkaup er heimilt að leita samninga við bjóðendur. Undanfarinn mánuð hafa samningaviðræður staðið yfir og er nú komin niðurstaða. Sveitarfélagið og heilbrigðisráðuneytið fengu sent minnisblað þar um frá Framkvæmdasýslu ríksins í lok vikunnar. Þar kemur fram að tekist hefur að lækka kostnað við bygginguna töluvert sem kemur þó ekki niður á gæðum hennar. Minnisblaðið fær umfjöllun í bæjarráði á þriðjudag einnig þarf niðurstaðan að fá umfjöllun hjá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og fá þar samþykki fyrir nýrri kostnaðaráætlun.
Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins hafa verið í samskiptum við heilbrigðisráðherra og þingmenn Suðurkjördæmis um málið. Ráðherra og þingmenn eru bjartsýnir á að ný kostnaðaráætlun fáist samþykkt af ríkinu. Það er því von okkar allra að framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili geti hafist á næsta ári. Þangað til höldum við, allt samfélagið áfram að mótmæla þar til rödd okkar heyrist.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.