Eins og bæjarbúum er kunnugt eru breytingar í vændum í rekstrarumhverfi hjúkrunar- og dvalarheimilisins Skjólgarðs um næstu mánaðarmót, þ.e. 1. mars nk. þegar Vigdísarholt ohf. tekur við rekstrinum. Vigdísarholt er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins Sunnuhlíðar í Kópavogi og Seltjarnar á Seltjarnarnesi.
Langur aðdragandi
Aðdragandinn að þessum breytingum hefur verið langur en bæjarstjórn sagði upp samningnum um rekstur hjúkrunarheimilisins í júní á síðasta ári. Í september hófst samningaumleitan við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) þar sem reynt var til þrautar að semja um aukin fjárframlög þannig að reksturinn gæti orðið sjálfbær. Hallarekstur hefur verið á stofnuninni undanfarin tvö ár og var síðasta ár mjög þungt. Um er að ræða málaflokk sem er á ábyrgð ríkisins og því ekki forsvaranlegt að útsvar íbúa sveitarfélagsins standi undir hallrekstri til lengri tíma. Það lá fyrir í desember að samningar mundu ekki nást milli sveitarfélagsins og SÍ og því þurftu Sjúkratryggingar Íslands að finna nýjan rekstraraðila. Upplýsingar um nýjan rekstraraðila lágu ekki fyrir fyrr en 10 dögum áður en samningurinn rann út en það var 31. janúar sl. Því var tekin ákvörðun um að semja um einn mánuð til viðbótar eða til 28. febrúar nk. og er nú hafin vinna við að flytja reksturinn til Vigdísarholts.
Lítið rask fyrir starfsfólk og íbúa
Það er markmið beggja aðila að starfsfólk, íbúar, þjónustuþegar og aðstandendur finni sem minnst fyrir breytingunum en lög um aðilaskipti gilda þannig að réttindi starfsfólks eru tryggð. Starfsfólk hefur verið einstaklega þolinmótt og sýnt málinu skilning en haldinn var starfsmannafundur þegar upplýsingar lágu fyrir um nýjan rekstraraðila. Sveitarfélagið mun berjast fyrir því að halda þremur sjúkrarýmum áfram inn á Skjólgarði en rýmin eru á ábyrgð HSU. Við teljum það vera hluta af grunnþjónustu í sveitarfélaginu að halda sjúkrarýmum hér enda er sveitarfélagið landfræðilega langt frá allri annarri heilbrigðisþjónustu og eru samgöngur oft á tíðum erfiðar, má segja að við séum „eyja“ á Suðausturlandi!
Samstíga með öðrum sveitarfélögum
Bæjarstjóri hefur unnið þetta mál í miklu samstarfi við önnur sveitarfélög sem hafa sagt upp samningum um rekstur hjúkrunarheimila, eru það Akureyrarbær, Vestmanneyjarbær og Fjarðarbyggð. Einnig hefur Samband íslenskra sveitarfélaga komið að málum. Nú hafa SÍ auglýst eftir rekstraraðila fyrir hjúkrunarheimili þessara þriggja sveitarfélaga en Vigdísarholt mun taka yfir rekstur Skjólgarðs.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri og Björgvin Sigurjónsson, fv. formaður heilbrigðis- og öldrunarnefndar.