Hitt og þetta

1144

Það er ekki um að villast að vorið er komið eða allavega á næsta leyti. Farfuglarnir flykkjast til landsins, bændur búa sig undir sauðburð og sumir hverjir eru byrjaðir að vinna í flögum. Sigurður Ólafsson að klára netarallið og ég búinn að verða mér til skammar á Hrossakjötsmótinu á Hala.

Loforðin 

Þegar Ásgerður bað mig um að skrifa grein í Leiðarhöfða var eina skilyrðið að ég yrði að reyna að vera skemmtilegur og tala sem minnst um pólitík þó meirihlutinn væri með allt niðrum sig, það er jú að koma sumar. Ég lofaði öllu fögru eins og sumir gerðu í kosningarbaráttunni en er ekki viss um að ég geti staðið við það, en fer af stað í þennan pistil með fögur fyrirheit. 

Hér sit ég við tölvuna á síðasta vetrardegi og horfi út um gluggan, sé þokuna læðast inn yfir bæinn og velti fyrir mér hvað ég eigi að skrif um. Dettur fyrst í hug pólitík. Þegar maður er búinn að vera þetta lengi í pólitík þá les maður allar fundargerðir og þær eru alltaf jafn upplýsandi eða þannig. Þar er allavega ekkert að frétta.

Stærsta fréttin

Á því eina ári sem núverandi meirihluti hefur verið við völd sýnist mér að ný hreppaskipan í sveitarfélaginu sé eini afraksturinn, allar sveitastjórnir síðan 1998 hafa verðið að reyna að þjappa mönnum saman hvar sem menn hafa verið í sveit settir. En nú er öldin önnur, tvær sveitir eiga að mynda (hreppsnefnd, íbúaráð, meirihluta, hverfaráð, stjórnvald???) sem á að vera talsmaður þess. Í 2500 manna sveitarfélagi þá veltir maður því fyrir sér hvað hægt sé að flækja lífið mikið.

Við erum klárlega ekki að fara inn í nýja líkamsrækt næsta vetur eins og maður hafði væntingar um, ég sem var farinn að sjá mig fyrir mér spókandi á sundskýlunni á laugarbakkanum sumarið 2024 með sixpack eins og Gummi kíró. Það verður víst að bíða betri tíma.

Aðeins meir um pólitík, lofa svo að hætta Ásgerður

Eins og komið hefur fram í fréttum eru fjármál sveitarfélaga áhyggjuefni og það getur verið fljótt að syrta í álinn. Í því vaxtaumhverfi sem er í dag og þeirri þenslu sem er í samfélaginu er glapræði að sveitarfélag fari í mörg hundruð milljóna króna framkvæmdir þar sem allt er tekið að láni, ég held að bæjarstjórn hafi nóg með þau aðkallandi verkefni og þær fasteignir sem við eigum nú þegar.

Nú er ég hættur 

Nú aðeins um hitt og þetta. Við Þórgunnur tókum þátt í stórskemmtilegu bridge móti á Hala um helgina og vil ég þakka mótshöldurum kærlega fyrir. Þar voru komnir saman 88 spilarar víðsvegar af landinu. Spiluð bridge í tvo daga og borðuðu góðan mat í pásum. Sýndist mér og heyrðist allir standa glaðir upp frá borði, hjónabandið þoldi þessa áraun svo ég er sáttur þó þriðja neðsta sætið hafi verið endirinn.

Loðnuvertíð gekk vel og þar skipti mestu að veðurguðirnir voru okkur hliðhollir. Þeir hafa líklega fengið  útrás síðasta vetur og verið uppgefnir eftir þau læti. Fiskirí hefur almennt verið gott en heimildir litlar þó svo það sé búið að fækka um einn bát sem er mikill missir fyrir þá menn sem misstu vinnuna.

Mikið hefur verið um ferðamenn í vetur og heyrist mér að sá atvinnugeiri láti ágætlega af sér og hafa menn talsverðar væntingar til komandi missera og vonandi verður það til þess að landbúnaður hér á svæðinu styrkist líka. Ég held að þessar tvær greinar eigi að geta stutt hvor aðra frekar en sundrað. Við eigum marga góða bændur hér um slóðir þó vissulega séu menn mis hirðusamir um sinn búpening en plast í girðingum ætti ekki að sjást og er öllum til ama og óþurftar (svo ég komi því nú að einu sinni enn).

Að lokum   

Ég vona að ég verði ekki settur út af sakramentinu hjá ritstjóra þessa ágæta vefs þó svo að ég hafi aðeins svikið loforðið um pólitík. Ég hélt aftur af mér eins og ég gat og vona að það verði talið mér til tekna, látum sumarið líða og njótum þess, 

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn!

Ásgrímur Ingólfsson.