Heitt vatn

615

Í öllu Covid fárinu er gaman að fylgjast með framgangi hitaveituframkvæmda í Hornafirði.  Í Austur- Skaftafellssýslu eru fáir staðir nærri byggð þar sem heitt vatn hefur fundist. Skaftafell, Hali og Hoffell koma upp í hugann í fljótu bragði.  Heitar lindir finnast inn til fjalla sem nýtast ekki í byggð.  Hitaveita í gegnum Nes og Höfn er framfaraskref til lengri tíma en til skamms tíma er þetta ekki búbót fyrir heimili og fyrirtæki.  Gjaldskrá við húshitun breytist ekki og margir húseigendur þurfa að leggja út fé til að skipta út rafmagnsofnum í vatnsofna.

Góðu fréttirnar eru að kostnaðurinn kemur til með að lækka.  Uppbygging kerfisins tekur sinn toll en þegar hann hefur verið greiddur niður þá kemur það heimilum til tekna.  Heitt vatn skapar líka möguleika til atvinnusköpunar.

Köld svæði fara hallloka

Árið 2012 flutti Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, athyglisverðan fyrirlestur á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga.  Hin nöturlega mynd sem hann dró þar fram var að fjögur svæði  á Íslandi hafa um langt árabil glímt við fólksfækkun: Snæfellsnes, Vestfirðir, Norðausturland og Suðausturland.  Öll eiga þau sameiginlegt að vera án jarðhita.

Margskonar atvinnustarfsemi þrífst á jarðhita og nærtækast er að vísa í ferðaþjónustu sem sprungið hefur upp við pottana í Hoffelli. 

Hitaveita í Hornafjörð

Það var því mikil gleðifregn þegar hitt var á heitavatnslind í Hoffelli sem dugir fyrir íbúa í Nesjum og á Höfn. Heitt vatn hefur alltaf hjálpað til við framþróun byggðar.   Það verður stór stund fyrir samfélagið þegar kveikt verður á dælunum sem flytja heitt jarðhitavatn í hús í Hornafirði.

Hjalti Þór Vignisson