Gamlabúð – hvað næst?

1004

Um síðust áramót urðu þær breytingar að upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Gömlubúð var lokað. Þá hefur þjóðgarðurinn tekið þá ákvörðun að óska ekki framlengingar á leigusamningi við sveitarfélagið og tekur sveitarfélagið aftur við húsinu þann 1. aprí n.k. eftir 10 ára veru þjóðgarðsins í húsinu.

Persónulega tel ég að það hafi verið góð ákvörðun að flytja húsið á núverandi stað og að þjóðgarðurinn hafi sómt sér vel í því í þessi tíu ár, en nú er komið að nýjum kafla.

Hvað tekur við?

Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 er ekki gert ráð fyrir rekstri hússins eða starfsemi á vegum sveitarfélagsins í því. Ég hef trú á því að margir deili þeirri skoðun með mér að það er nauðsynlegt að einhver starfsemi verði í því hver svo sem stendur fyrir henni.

Eins og kom fram á bæjarstjórnarfundi sl. fimmtudag hefur Ríki Vatnajökuls sýnt því áhuga að koma að rekstrinum í samstarfi við sveitarfélagið. Taka þarf samtalið áfram við félagið og skoða með hvaða hætti það gæti verið eða jafnvel auglýsa eftir áhugasömum til rekstrar í húsinu.

Til lengri framtíðar.

Atvinnu- og menningarmálanefd hefur fjallað um og skoðað kostnað við að koma upp nýrri sýningu í húsinu en eins og áður sagði er því verkefni ekki markað fé í fjárhagsáætlun og ekki heldur til starfsmannahalds. Því er spurning um millibils tímabil á meðan framtíðarhlutverk hússins er ákveðið.

Mikligarður í sömu stöðu.

Þá er framtíð Miklagarðs í álíka stöðu. Í viðauka III við fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 frá því í september s.l. voru þeir fjármunir sem ekki höfðu þegar verið nýttir á framkvæmdaáætlun ársins felldir niður, alls 33 milljónir. Viðaukinn var síðan samþykktur í bæjarstjórn á síðasta fundi. Sama staða er á Miklagarði hjá atvinnu- og menningarmálanefnd, framtíð hússins hefur verið rædd en er áform um að gera neitt samkvæmt fjárhagsáætlun ´23. Væri ekki ráð að reyna að nýta húsið?

En aftur að Gömlubúð, að mínu viti má það ekki gerast að húsið verði lokað, án nokkurrar starfsemi í sumar!

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi og aðalmaður í bæjarráði.