Framkvæmdir við höfnina

300

Framkvæmdir á vegum hafnarinnar í sumar eru þær helstar að nú er unnið að gerð sandfangara, þ.e. grjótgarðs, frá Suðurfjörum útí Einholtskletta og er áætlað að verkinu ljúki fyrir septemberlok á þessu ári.  Garðurinn verður um tvö hundruð metrar á lengd fullbúinn og hlutverk hans verður að hefta sandburð austur með fjörunni inná Grynnslin utan Hornafjarðaróss og auðvelda þar með siglingu stærri skipa um Ósinn.  Þessi framkvæmd er unnin í samvinnu við samgönguyfirvöld og er undir eftirliti starfsmanna Vegagerðarinnar. Framkvæmdin er afrakstur rannsókna sem farið hafa fram á undanförnum árum á svæðinu utan Hornafjarðaróss. 

Regluleg dýpkun

Dýpkun hafnarinnar er fastur liður í starseminni og fer fram á tveggja ára fresti. Dýpkunin í sumar, sem nú er lokið, var sú síðasta samkvæmt samningi við Dýpkunarfélagið Trölla ehf. og liggur fyrir að verkefnið verður boðið út að nýju á næstu mánuðum. Í hvert sinn er dælt um 50.000 m3 af fínu efni úr höfninni samkvæmt mælingum sem gerðar eru reglulega af starfsmönnum hafnarinnar og Vegagerðarinnar eftir atvikum.

Reynir Arnarson
Formaður hafnarstjórnar