Fjárhagsáætlun 2022

306

Í gær fimmtudaginn 11.11.21 var fyrri umræða í bæjarstjórn um fjárhagsáætlun fyrir árið 2022.

Varðandi tekjuhliðina byggir áætlunin á óbreyttum álagningarreglum frá fyrra ári s.s. óbreyttu útsvari, 14,52% og fasteingnaskatts prósentu en fasteignaskattsstofn hækkar að meðaltali um 3.5% í sveitarfélaginu.

Gjaldskrár

Samþykkt var tillaga að hækkun gjaldskráa sem tengjast fræðslu- og tómstundamálum en gjaldskrár fyrir sorpmál og veitur eru enn í vinnslu og verða tilbúnar fyrir seinni umræðu í bæjarstjórn sem fram fer í desember.

Framkvæmdaáætlun

Í framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir 500 milljónum sem er talsvert minna en verið hefur undanfarin ár en talsverð óvissa ríkir enn um stóra framkvæmd s.s. nýtt hjúkrunarheimili. Vonandi mun sú framkvæmd fara af stað sem allra fyrst en sveitarfélagið hefur nú þegar lagt um 200 milljónir inn í verkefnið.

Helstu niðurstöður

Fyrir A og B hluta eru helstu niðurstöður eftirfarandi: rekstarniðurstaða 68,3 m.kr., skuldir og skuldbindingar 2.346 m.kr., veltufé frá rekstri 379.3 m.kr, ný lántaka 250 m. kr., afborganir langtímalána 116.4 m.kr., skuldir og skuldbingingar í hlutfalli af tekjum 73.5%.

Áskoranir í rekstri

Það er ljóst að ýmsar áskoranir eru í rekstrinum. Laun og launatengd gjöld hafa hækkað töluvert undanfarið og stytting vinnuvikunnar hefur áhrif þar á s.s. í velferðarþjónustu. Áhrif loðnubrests og heimsfaraldurs með fækkun ferðamanna á rekstur sveitarfélagsins eru talsverð eins og á samfélagið allt. En þrátt fyrir þrengingar þá stendur sveitarfélagið vel.

Samvinna

Fjárhagsáætlun er unnin í góðu samstarfi starfsmanna og kjörinna fulltrúa og var afgreidd samhljóða af öllum bæjarfulltrúum í bæjarstjórn.

En þrátt fyrir áskoranir í rekstri erum við bjartsýnar á að nýtt ár færi okkur betri tíð með aukinni loðnuveiði og fjölgun ferðamanna.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.