Nú hyllir í lok skólaársins sem hefur einkennst af sóttvörnum og samkomutakmörkunum. Þá er fer fólk eðlilega að spá í sumarið sem námsmenn hafa í gegnum tíðina getað nýtt til að ná sér í fjölbreytta reynslu á vinnumarkaði og afla sér tekna m.a. fyrir næsta vetur.
Þau ánægjulegu tíðindi bárust frá stjórnvöldum í dag að endurtekinn verður stuðningur við sumarstörf í sumar auk þess sem boðið verður uppá sumarnám líkt og síðasta sumar.
Í tilkynningu frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Félagsmálaráðuneytinu á vef Stjórnarráðsins segir:
Tæpum 2,4 milljörðum kr. verður varið í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður.
Að sjálfsögðu grípum við í Sveitarfélaginu Hornafirði þennan bolta og munum ræða í bæjarráði n.k. þriðjudag hvernig við getum tekið þátt í því að skapa störf fyrir námsmenn í sumar.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.