Á síðasta fundi atvinnumálanefndar kom fram að atvinnuleysi í Sveitarfélaginu Hornafirði er í sögulegum hæðum, rúmlega 270 manns eru skráðir hjá Vinnumálastofnun. Nú stendur yfir greining á listanum svo hægt verði að greina betur vandann. Ljósið í myrkrinu er að við vitum að þetta er tímabundið ástand sem gengur yfir. Þegar ferðamenn fara að streyma til okkar að nýju munum við þurfa allar þær vinnandi hendur sem til eru á staðnum og gott betur.
Sveitarfélagið getur sett af stað ýmis verkefni í samvinnu við Vinnumálastofnun til að fjölga störfum tímabundið. Einnig væri gott að setja upp vettvang þar sem hægt væri að leiða saman þá sem eru atvinnulausir og þá sem geta bætt við sig vinnuafli og langar mig að hvetja þá sem hafa möguleika á því að gera það. Sem betur fer heldur sveitarfélagið uppi háu atvinnustigi og á að gera það áfram í árferði sem þessu. Fiskvinnslan gengur vel og einnig er nóg að gera bæði hjá iðnaðarmönnum og jarðverktökum. Sveitarfélagið hyggst ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir í vetur.
Nýsköpun og matvælaframleiðsla
Nú í nóvember verður auglýst eftir umsóknum í atvinnu- og rannsóknarsjóð og í ár verður aukaúthlutun þar sem horft verður sérstaklega til nýsköpunar. Vonandi sjáum við nýjar og flottar hugmyndir hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem geta nýtt sér þessar úthlutanir sem fyrsta skref. Í sveitarfélaginu starfar einnig atvinnufulltrúi frá SASS sem íbúar geta leitað til bæði með hugmyndir og einnig og ekki síður til aðstoðar við gerð styrkumsókna.
Í sveitarfélaginu er rekin matarsmiðja í samvinnu við Matís sem því miður hefur hún ekki verið vel nýtt síðustu árin og er töluverð óvissa með þá starfsemi þó það sé ósk og vilji undiritaðs að hægt verði að halda henni áfram á svæðinu. Það er mér algjörlega óskiljanlegt að ekki skuli vera hægt að reka hér sláturhús eins og áður og einhverskonar kjötvinnsla sem myndi þjóna svæðinu, heldur er mest öllu sauðafé keyrt norður í land til slátrunar. Og afurðum aftur ekið til baka til neyslu. Það er eitthvað rangt við þetta ferli.
Störf án staðsetningar er mjög spennandi kostur fyrir marga og það trúlega það eina jákvæða sem komið hefur út úr þessum veiruskratta sem herjar á okkur. Það er ýmislegt hægt með tækninni, til dæmis að stunda atvinnu í Danmörku frá skrifstofu á Hornafirði. Sveitarfélagið leitar nú leiða til að setja upp aðstöðu fyrir þá sem það vilja og geta.
Kristján S. Guðnason
Formaður atvinnumálanefndar