Er ekki bara best að taka þátt!

312

Nú er undirbúningur kosninga 14. maí n.k. kominn á fulla ferð. Öflugur hópur frambjóðenda vinnur nú málefnavinnu þar sem viðhorf þeirra sem eru að koma nýjir inn í sveitarstjórnarmálin og reynsla þeirra sem hafa verið á þeim vettvangi er lögð saman.

Framboð Framsóknar og stuðningsmanna þeirra vill gjarnan bjóða íbúum að taka þátt í vinnunni og heyra þeirra sjónarmið til málefna sveitarfélagsins. 

Á morgun laugardaginn 2. apríl verður opinn málefnafundur framboðsins í kosningaskrifstofunni okkar frá kl.11-13 sem að þessu sinni verður í Viðreisn, kaffistofunni í skemmunni við Víkurbaut. Ég hvet íbúa til að mæta og taka þátt í að móta stefnu Framsóknar og stuðningsmanna til næstu fjögurra ára.

Staða fatlaðs fólks í sveitarfélögunum

Í gær fimmtudaginn 31. mars buðu Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp til opins fundar með framboðum til sveitarstjórnar í Nýheimum á Höfn. Fulltrúar ÖBÍ og Þroskahjálpar fluttu erindi fyrir okkur og köllu eftir áherslum framboðanna í málefnum fatlaðs fólks.

Margar góðar ábendingar komu fram  um það sem vel er gert og hvað betur má fara bæði í þjónustu við fatlaða og varðandi upplýsingagjöf. Fundurinn var mjög upplýsandi og áhugaverður og mun nýtast vel í málefnavinnunni framundan í velferðarmálum.

Það er mjög gott bæði fyrir okkur frambjóðendur og félagasamtök sem þessi að koma saman og fara yfir stöðu mála, áskoranir og tækifæri.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og frambjóðandi í 1. sæti Framsóknar og stuðningsmanna þeirra í Sveitarfélaginu Hornafirði