Breytt samfélag

516

Það eru fáir á ferli og ferðamennirnir svo til horfnir.  Veitinga- og gististaðir hafa margir skellt í lás.  Auk þess hafa hárgreiðslustofur, smáverslanir og fleiri þjónustuaðilar þar sem mikil nánd er við viðskiptavini þurft að loka.  Samkvæmt spálíkani þá nær covidfaraldurinn ekki hámarki fyrr en í apríl og lífið kemst væntanlega ekki í sama horf fyrr en um mánaðarmót júní – júlí. 

Engum blöðum er um það að fletta að áhrif á efnahag fólks og fyrirtækja verða mikil.  Ríkisstjórnin hefur þegar stigið fram með markvissar aðgerðir og útilokar ekki að meira þurfi til.  Sveitastjórnir undir forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga eru einnig að skoða hvernig þær geta hjálpað til við að brúa bilið fyrir íbúa og fyrirtæki.

Aðgerðir bæjarstjórnar

Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur haldið vinnufundi til að leggja línur um aðgerðir sveitarfélagsins. Einurð og samstaða hefur einkennt starfið sem er mikilvægt á tímum sem þessum.  Dægurþrasið má bíða betri tíma.  Sterk staða sveitarfélagsins kemur sér mjög vel í þessum aðstæðum.  Fyrirhugaðar eru umtalsverðar framkvæmdir hjá sveitarfélaginu. Þar má sem dæmi telja endurbætur á Vöruhúsi, miklar breytingar á Víkurbraut 24 sem hýsa mun fjölskyldu- og félagsþjónustu sveitarfélagsins, breytingar á Hrolllaugsstöðum þar sem útbúnar verða leiguíbúðir auk hitaveituframkvæmda á hluta leiguíbúða í eigu sveitarfélagsins á Höfn o.s.frv.  

Atvinnulífið

Það hefur verið tekin ákvörðun um að fresta a.m.k. tveimur gjalddögum fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði hjá þeim fyrirtækjum sem verða fyrir miklum búsifjum vegna veirunnar. Augljóst er að faraldaurinn kemur mjög hart niður á ferðaþjónustufyrirtækjum.  Bæjarráð hefur hvatt til þess að atvinnurekendur reyni eftir fremsta megni að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt og nýti sér aðgerðir stjórnvalda, bankanna og annarra sem eru að koma til móts við atvinnulífið með hinum ýmsu aðgerðum. Hugað er að atvinnuskapandi verkefnum sem sveitarfélagið getur farið í til að draga úr atvinnuleysi ef til langvarandi erfiðleika kemur og annarra verkefna sem hægt er að setja af stað fyrir þann hóp.

Þá hefur bæjarstjórn rætt um hvort ekki væri skynsamlegt að ráðstafa umtalsverðum fjármunum í gerð kynningarmyndbands, sérstaklega um áfangastaðinn Ríki Vatnajökuls.  Þetta myndband gæti verið gott til dreifingar þegar stjórnvöld boða markvissa kynningarherferð fyrir landið í heild.

Þjónusta sveitarfélagsins

Tekin var ákvörðun í bæjarráði sl. þriðjudag um að fella niður gjöld í leikskóla og Kátakoti hjá þeim sem hafa aðstæður til að taka börn sín úr vistun á meðan faraldurinn er að ganga yfir. Unnið er að útfærslu verkefnisins. Starfsmenn í öllum stofnunum sveitarfélagsins hafa unnið mikla og góða vinnu í að aðlaga og breyta starfseminni. Koma upp með og finna leiðir til að takast á við fordæmalausar aðstæður, en halda samt starfsemi gangandi eins og hægt er þrátt fyrir að ekki sé tekið á móti þjónustuþegum í starfstöðvum eins og áður. Við viljum hrósa og þakka starfsmönnum kærlega fyrir þeirra góða starf .

Næstu skref

Bæjarstjórn, bæjarráð, stjórnendur og starfsmenn sveitarfélagisns fylgjast vel með þróun mála og áhrifum faraldursins á samfélagið. Endurskoða þarf fjárhagsáætlun sveitarfélagsins þ.m.t. framkvæmdaáætlun ársins og undirbúa það að vera tilbúin til að breyta og bæta inn verkefnum sem stutt geta enn frekar við samfélagið á þessum undarlega tíma.

Framtíðin er björt

Þetta er tímabundið ástand en afleiðingarnar gætu reynst mörgum þungar.  Ekki er víst að atvinnulífið og efnahagur fólks jafni sig fyrr en að nokkrum misserum loknum.  Við eigum þó góða innviði sem við getum áfram byggt á góða framtíð.  Nú sannast mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu.  Búskapur hér sem annars staðar hefur átt undir högg að sækja en vonandi gerir þetta ástand okkur öllum ljóst að við verðum að hlúa að innlendri framleiðslu.  Sjávarútvegurinn stendur einnig sterkum fótum þrátt fyrir ágjöf.   Okkar stórbrotna náttúra og þjóðgarðurinn eru  ekki að fara neitt og munu áfram laða til okkar gesti. 

Við skulum reyna eftir fremsta megni að standa saman í gegnum þessar þrengingar og hlúa áfram að okkar góða og heilbrigða samfélagi.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs
Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar
Björgvin Ó. Sigurjónsson, varaformaður bæjarráðs
Kristján S. Guðnason, formaður atvinnu- og menningamálanefndar