Frá hausti 2020 hefur verið unnið að styttingu vinnuvikunnar hjá Sveitarfélaginu Hornafirði eins og um land allt. Breytingarnar tóku gildi samkvæmt kjarasamningum hjá dagvinnufólki um áramót og í maí hjá vaktavinnufólki. Öll stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga nema grunnskólakennara hafa samið um styttingu vinnuvikunnar.
Innleiðing
Innleiðing verkefnisins hefur verið leidd af mannauðsstjóra sveitarfélagsins í samvinnu við starfsmenn á hverjum vinnustað. Mismunandi er hvaða leið hentar hverjum vinnustað sveitarfélagsins en markmiðið er ekki hljótist af viðbótar kostnaður og að íbúar verði ekki fyrir þjónustskerðingu.
Verkefnið hefur hlotið heitið Betri vinnutími og er ljóst að það er misjöfn útfærsla eftir ólíkum einingum sveitarfélagsins. Útfærslan hefur verið útfærð eftir ítarlegt samstarf við starfsmenn hvers vinnustaðar en haldnir voru 2-3 fundir áður en endanleg útfærsla var mótuð.
Endurmat
Það er ljóst að einhverjir vaxtarverkir verða við innleiðinguna en mikil sátt hefur ríkt á meðal starfsmanna um fyrirkomulag á hverjum vinnustað. Næsta haust verður staðan endurmetin og þá hvort sníða þurfi verkefnið til í ljósi reynslunnar fyrsta hálfa árið. Innleiðing hjá vaktavinnufólki tók gildi 1. maí og er það mun flóknari breyting enda er verið að gjörbylta launakerfinu með það að markmiði að bæta vinnuumhverfi vaktavinnufólks.
Starfsmenn sveitarfélagsins sinna fjölbreyttum verkefnum í þjónustu við íbúa af miklum metnaði og er það okkar von að innleiðing betri vinnutíma stuðli að aukinni ánægju í starfi þegar til lengri tíma er litið.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri.