Árið 2021 var samþykkt í bæjastjórn heildarstefna sveitafélagsins sem ber nafnið Hornafjörður Náttúrulega. Stefnan er byggð á heimsmarmiðum sameinuðuþjóðanna. Hún hefur hlotið góða kynningu og ættu flestir íbúar sveitafélagsins að hafa heyrt á hana minnst.
Farsældarlögin
Innleiðing svokallaðra farsældarlaga í þágu barna er á fullu í sveitafélaginu. Sveitafélagið Hornafjörður var að vinna góða vinnu sem talar vel við innleiðingu þessara nýju laga. Helsta breytingin er í barnaverndinni, en hún er nú lögbundið á hendi fagfólks en ekki kjörinna fulltrúa lengur. Með þessari innleiðingu eigum við eftir að læra á nýyrði eins og tenglar og málastjórar barna. Þessa titla bera einstaklingar sem hafa menntun og þekkingu til að vinna með börnum og verða nokkurskonar „þjónustufulltrúar“ fyrir börn. Til þeirra geta leitað jafnt börn sem fullorðnir sem áhyggjur hafa af barni.
„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.“ Segir í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tekur mið af réttindum barna og þeim skyldum sem ríki og sveitafélög þurfa að standa við gagnvart börnum og fjölskyldum þeirra. Sáttmálinn er samkomulag til samfélagsþegna um menntun, viðhorf, samskipti og uppeldi barna og byggir á einnig heimsmarkmiðunum.
Barnvænt sveitarfélag
Í dag stendur yfir innleiðing á Barnvænu sveitafélagi, það var samþykkt í bæjarstjórn árið 2020. Barnvænt sveitarfélag er verkefni sem styður við innleiðingu Barnasáttmálans í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF sem kallast “Child Friendly Cities Initiative” og hefur verið innleitt í hundruðum borga frá árinu 1996. Verkefnið hefur verið innleitt hér á landi undir nafninu Barnvæn sveitarfélög frá 2016, en Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi 2013.
Grunnþættir Barnvæns sveitarfélags eru að vinna markvisst eftir hugmyndafræði verkefnisins sem byggir á þekkingu á réttindum barna, því sem er barninu fyrir bestu, jafnræði í að horft sé til réttinda allra barna og þátttöku barna en saman skapa þessir þættir barnvæna nálgun á málefni sveitarfélagsins. Sem talar við Hornafjörð Náttúrulega þar sem í þeirri stefnu segir við viljum búa í fjölskylduvænu og heilsueflandi samfélagi þar sem fólk hefur jöfn tækifæri og fær þjónustu og menntun við hæfi.
Innleiðingarferlinu er skipt í 6 þætti síðan er 7. þátturinn viðurkenning og sá 8. endurmat. Viðurkenningin gildir í þrjú ár frá því að hún er veitt. Þegar viðurkenningin er í höfn þarf sveitarfélagið að setja sér ný markmið, hefja nýtt stöðumat og endurmat og hefur til þess 3 ár. Þannig verður verkefnið lifandi og í stöðugu endurmati.
Langt komin í innleiðingarferlinu
Í dag erum við rúmlega hálfnuð með innleiðingu að viðurkenningu. Innleiðingin hefur dregist vegna Covid og kosninga. Stýrihópur verkefnisins er skipaður mikið til af nýjum einstaklingum en hann skipa sviðstjórar sveitafélagsins, fulltrúar úr stjórnsýslunni, tveir fulltrúar bæjarstjórnar og þrír fulltrúar ungmennaráðs ásamt nýjum verkefnastjórna.
Gunnhildur Imsland varabæjafulltrúi Framsóknar, aðalmaður í fræðslu- og frístundanefnd og fulltrúi í stýrihóp um innleiðingu Barnvæns sveitarfélags.