Vinna, vöxtur og velferð er vel þekkt slagorð Framsóknarflokksins. Það er eitt af okkar leiðarljósum sem á ekki síst við nú þegar við glímum við sögulegan niðursveiflu í efnahagslífi landsins. En við vitum að öll él birtir upp um síðir og hið sama gildir um efnahagslífið. Við munum ná okkur aftur á strik.
Egg í fleiri körfum
Áföll eru til að læra af þeim og yfirstandandi farsótt hefur kennt okkur margt, ekki bara að standa í biðröðum heldur einnig að nýta fjarfundatækni og auka þar með skilning á störfum án staðsetningar, og ekki síst hversu mikilvægt það er að atvinnulífið grundvallist á fjölbreyttum og sterkum stoðum. Sterkur sjávarútvegur og landbúnaður einkennir atvinnulífið í Austur Skaftafellssýslu og svo hefur ferðaþjónustunni vaxið fiskur um hrygg á svæðinu, eins og annars staðar á landinu. Þrátt fyrir komu bóluefnis þá gera flestar greiningar ráð fyrir að ferðalög erlendra ferðamanna muni að mestu leggjast af að minnsta kosti vel fram á næsta ár og að það muni taka tíma að byggja greinina upp að nýju.
Nýtum nýjar leiðir til verðmætasköpunar
Af þessu má draga þá ályktun að ekki sé endilega æskilegt að 35 til 40 prósent útflutningstekna okkar komi frá einni atvinnugrein. Við þurfum fjölbreytt störf um land allt. Með það í huga erum við m.a. að leggja aukna áherslu á skapandi greinar og við þurfum að leggja þyngri áherslu á innlenda matvælaframleiðslu; gera meira af því að fullvinna afurðir hér á landi og auka þar með verðmætasköpun þjóðarinnar. Þá getum við sparað töluverðan gjaldeyri með því að verða sjálfbærari á ýmsum sviðum. Ég hef t.a.m. lagt fram tvö þingmál í haust sem tengjast aukinni sjálfbærni, annað snýst um setja hvata til ræktunar og vinnslu á orkujurtum og hitt um að styrkja starfsumhverfi þeirra sem vilja afla þörunga.
Breytingar og ný tækifæri
Verkefni stjórnvalda er að horfa til framtíðar og byggja upp fjölbreytt atvinnulíf, og í samdrætti verða stjórnvöld að örva hagkerfið og fjölga störfum. Við höfum t.d. bætt tugum milljarða króna í samgönguverkefni, klárað að koma hlutdeildarlánunum svokölluðu á kopp til að örva húsnæðismarkaðinn og sett aukið fjármagn í viðhald á opinberu húsnæði. Sveitarfélög um land hafi einnig staðið sig vel í að fjölga störfum og að leita leiða til að halda fólki í virkni, góðri samvinnu við ríkisvaldið. Félagsmálaráðherra fundar t.d. mánaðarlega með félagsþjónustum sveitarfélaga. Slíkt samtal skiptir miklu máli til að meta árangur aðgerða og koma til móts við ólíka hópa.
Nám er tækifæri
Verkefnið „Nám er tækifæri“ var sett á laggirnar snemma árs og miðar að því að gefa fólki tækifæri á að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Hluti af verkefninu er að atvinnuleitendum er gert kleift að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við. Átakið afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla en fyrirsjáanlegur skortur er í þeim geirum. Atvinnuleitendum verður einnig greidd leið í brúarnám og þá verður háskólamenntuðum boðið upp á flýtileiðir til annarrar prófgráðu þar sem skortur er, til dæmis í og heilbrigðis- og kennslugreinum.
Framsóknarflokkurinn hefur starfað í rúma öld í íslensku samfélagi og flokksfólk hans hefur tekið virkan þátt í þeim miklu samfélagsbreytingum sem átt hafa sér stað á þeim tíma með hag lands og þjóðar að leiðarljósi. Áfram veginn!
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins