Heil og sæl öll sömul. Ég hef lítið mundað pennann í nokkur misseri og eingöngu þusað við eldhúsborðið þar sem enginn nennir lengur að hlusta á mig. Þess vegna beini ég nú orðum mínum til þín lesandi góður og ætla að velta fyrir mér nokkrum verkefnunum sveitarfélagsins og hvernig mér finnst að það ætti að vinna með þau.
Ari Jónsson og þjóðvegur í þéttbýli
Ég er alveg hjartanlega sammála Ara um notagildi þjóðvegar í þéttbýli. Ef hann á að koma í land einhverstaðar fyrir innan „pípuhlið“ eins og ég fékk spurnir af á ágætum íbúafundi sem Ari vitnar í í grein sinni í Eystrahorni https://eystrahorn.is/thjodvegur-i-thettbyli-er-thorf-a-honum/ þá væri það mikill afleikur. Að eyðileggja Ægisíðuna eða fara í bakkann á Sílavíkinni væru umhverfisspjöll, svo á flutningur á þessu vegstæði ekki að vera forgangsverkefni í vegmálum sveitarstjórnar. Fyrir utan sóun á almannafé væri notagildið ekkert fyrir okkur íbúa í þéttbýlinu. Ef vegurinn kæmi í land innarlega myndu innbæingar ekki fara inn eftir og svo út eftir á athafnasvæðið til vinnu. Því yrði umferðin í kringum skóla og íþróttasvæði sú sama á morgnana og kvöldin og trúlega meiri með stækkandi samfélagi. Þess vegna á að halda sig við það að tengja þennan veg við Hafnarbraut til móts við Vesturbraut. En þessu fylgir:
Flutningur á tjaldstæði
Að ætla að hafa næsta byggingarsvæði hér á Hornafirði á ÍB5 en ekki á tjaldstæðinu er algjört glapræði að mínu mati og svo mikil skammsýni að ég held að Þorvaldur þusari hljóti að verða allur og muni snúa sér í marga hringi í gröfinni, blessuð sé minning hans.
Þú lesandi góður, þegar þú velur áningastað á hringferð um landið ertu þá búinn að mæla vegalengdir frá tjaldstæði að miðbæ. Ekki ég allavega. Ég fer á þá staði sem mig langar að fara á, sama hvar tjaldstæðið er. Ég hætti ekki við og ég held að engin myndi hætta við þó að tjaldstæðið væri 600 metrum innar. Þar eigum við í samstarfi við okkar frábæra skógræktarfélag að efla Drápskletta. Þar er að vaxa upp skemmtilegt útivistarsvæði sem bíður upp á bæði útivistarmöguleika og stutta vegalengd í miðbæinn.
Eins og sést á þessari mynd eru um 280m að Víkurbraut frá syðsta enda tjaldstæðis (leið 1) og um 700m frá syðsta enda ÍB5 (leið 3) eða um 420m lengri ganga í öllum veðrum.
Hér eru um 500m frá planinu þar sem þjónustubyggingin fyrir tjaldstæðið er að Víkurbraut (leið 2) og 1100m frá þeim stað sem þjónustubygging fyrir nýtt tjaldstæði í Drápsklettum gæti staðið (leið 4) eða 600m lengri ganga sem oftast er í sumarveðri.
Vert er að benda á í þessu samhengi að það yrði örstutt í nýja þjónustubyggingu sem er í kortunum og talað er um að staðsetja á móti Mjólkurstöðinni.
(Menn geta leikið sér með þessar mælingar á heimasíðu sveitarfélagsins.) https://map.is/hofn/#
Hvers vegna?
Ef menn halda að þessir 600 m verði þess valdandi að ferðamaðurinn komi ekki hingað á sumrin þá ættu menn að velta því fyrir sér að á veturna er rúmum 400m lengra fyrir börnin okkar að labba í skóla og frístundir ef menn velja ÍB5 í staðinn fyrir tjaldstæðið. Þetta miðar við mælingar syðst á báðum svæðum og auðvitað eru íbúar þarna allt árið enn ekki bara eina nótt yfir hásumarið.
Það er enginn að tala um að eyðileggja Hrossabithagann heldur gera hann skemmtilegri og notendavænni og sýna honum þann sóma sem hann á skilið. Ef við ætlum að stuðla að heilsueflandi samfélagi og erum staðráðinn í því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að íbúar geti komist sem flest án einkabílsins þá verðum við að hafa kjark til að haga skipulagsmálum eftir því. Að stytta ekki vegalengdir eða nota innviði betur er sóun. En hvenær er maður svo sem farinn að ganga of langt, það gæti verið efni í aðra grein.
Það er bæði hagkvæmt fyrir sveitarfélagið og húsbyggjendur að byggja á tjaldstæðinu. Fyrir sveitarfélagið er mikið ódýrara að útbúa lóðir þar og er ég nokkuð vissum um að þó við tækjum kostnað við uppbyggingu nýs tjaldstæðis inn í það mengi þá væri það samt hagkvæmara. Grundun á mörgum lóðum sem væru á tjaldstæðinu er þægilegri og þar fyrir utan dugar frekar einn bíll á heimili þar. Það er líka mín skoðun að áfangaskipting á þessu svæði sé mun auðveldari.
Þusið í honum Þorvaldi
Aðeins um þusið í honum Þorvaldi sem er náttúrulega bara til þess gert að hefja einhverja umræðu. Vonandi skilar sú umræða sér í því að ákvarðanatakan verður á þann veg að flestum líki. En margt í þessu þusi er óttaleg vitleysa. Til dæmis hefur ekki verið skortur á byggingarlóðum í þéttbýlinu. Það var nóg af lóðum til ársins 2016. Á þeim tíma stóðu mörg sveitarfélög frammi fyrir því að byggingarkostnaður og fasteignarverð var farið að nálgast og fólk sá tækifæri í því að að byggja. Þannig hagaði málum hér. Vextir voru lágir og fasteignaverð hækkaði því fasteignir fóru undir ferðamenn eða starfsfólk ferðaþjónustuaðila. Það var líka mikið lán þegar fólk sem var komið af léttasta skeiði hafði möguleika á að fara úr sínum eldri híbýlum í nýrri og minni. Eftirspurn og framboð verða að haldast í hendur og hér gekk það vonum framar. Þetta er þó þröngur vegur að þræða og hefur reynst mörgu sveitarfélaginu erfitt.
Annað bull í Þorvaldi er með þéttingu innbæjar. Ég held að ég geti fullyrt að um ekkert mál hér á Hornafirði hefur verið haft eins mikið samráð. Nánast frá fyrstu stigum. Auðvitað er hægt að rökræða hvenær á að opna á fyrirætlanir. Mér finnst best að það sé búið að móta þær aðeins svo menn hafi eitthvað um að ræða. Reynt var að nálgast þá sem málið varðaði. Hins vegar verð ég að játa að ég skildi aldrei hvað sumir voru að vilja upp á dekk og rök eins og af því bara er mög erfitt að ræða af einhverju viti. Ég skildi afstöðu fjögurra fasteignaeigenda í þessu máli, en það er nú bara ég.
Að lokum
Vaxtarskeið Hornafjarðar hafa verið nokkur. Vaxtaskeið hafa komið í kippum og þess á milli hefur orðið talsverð stöðnun. Þessu verður sveitarstjórn að velta fyrir sér. Hvernig verður þróunin? Hvar eru atvinnutækifærin og hversu mannfrek eru þau? Hver verður samsetningin á starfsfólki sem kemur til með að starfa hér?
Hvernig getum við verið tilbúin en samt ekki með of mikið undir? Þarna kemur Þorvaldur sterkur inn. Við verðum að vera tilbúin að grípa til þéttingar. Við verðum að hafa svæði sem gott er að byggja upp í áföngum og þar er núverandi tjaldstæði dauðafæri. Reynum að hafa fjölbreytta og góða byggingakosti.
Nýjum Miðbæ hefur verið hossað hátt sem er er vel og þar sýnist manni að verið sé að fullnægja smáum og meðalstórum eignum um langa framtíð. Það er mín skoðun að þétting og áfangaskipting tjaldstæðisins fullnægi svo einbýlishúsalóðum um nokkuð langa framtíð, nema auðvitað ef menn vita eitthvað sem ég veit ekki.
Ásgrímur Ingólfsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.