Allir leggjast á árarnar

393

Eldri borgarar byggja minigolfvöll

Föstudaginn 10. júlí sl. var vígsluathöfn á nýjum minigolfvelli sem Félag eldri Hornfirðinga (FEH) á hugmyndina og heiðurinn af. En í maí 2019 kom erindi til bæjarráðs frá félaginu með ósk um styrk og stuðning sveitarfélagsins til að koma vellinum upp. Félagar FEH smíðuðu brautirnar en sveitarfélagið greiddi efniskostnað og uppsetningu þeirra. 

Sveitarfélagið varð við beiðninni, greiddi efniskostnað, undirbúning og uppsetningu en félagar FEH smíðuðu brautirnar. Enn fleiri fyrirtæki og einstaklingar aðstoðuðu með margvíslegum stuðningi við verkefnið. Komnar eru upp þrjár brautir af fimm og vil ég hvetja fólk til að vera duglegt að nýta þessa flottu minigolf aðstöðu og ganga vel um hana, jafnt unga sem aldna. 

Vinnuskólinn fegrar bæinn

Starfsmenn Vinnuskólans, unglingar og flokkstjórar hafa verið í hugmyndavinnu um ákveðin svæði í bænum auk þess að gera bæinn okkar hreinann og snyrtilegan. Það verður spennandi að sjá á næstu vikum hvernig þau vinna úr þeim hugmyndum. Hægt er að fylgjast með starfsemi þeirra á Facebook síðu Vinnuskóla Hornafjarðar en þar hafa komið skemmtilegar myndir fyrir og eftir yfirferð krakkanna um hin ýmsu svæði í bænum.

9 ára vilja endurbætur

Þá barst bæjarráði erindi frá tveim 9 ára drengjum í vikunni þar sem kom fram ósk um lagfæringar á malbiki og aðstöðu við hjólaramp á miðsvæðinu bak við Íþróttahúsið. Því erindi er að sjálfsögðu vel tekið og fer það til frekari vinnslu hjá umhverfis- og skipulagsnefndar sem vinnur að deiliskipulagi á svæðinu, einmitt með það m.a. að markmiði að gera miðsvæðið skemmtilegt til íþrótta- og útivistar fyrir alla aldurshópa.

Ábendingar vel þegnar

Við getum öll lagt okkar af mörkum til að gera samfélagið okkar enn betra. Ábendingum og tillögum að verkefnum er vel tekið. Á forsíðu heimasíðu sveitarfélagsins www.hornafjordur.is er hnappur „Ábendingar og fyrirspurnir“  sem ég hvet ykkur til að nýta og koma litlu sem smáu á framfæri við starfsfólk sveitarfélagisns.

Að lokum þá skulum við halda áfram að vera dugleg að plokka rusl og annað s.s. smásteina sem eiga greiða leið upp á minigolfbrautirnar, hreinsum þá burt svo þeir rífi ekki grasdúkinn. 

Njótum lífsins og alls þess skemmtilega sem það býður uppá! 

Ásgerður K. Gylfadóttir

Formaður bæjarráðs