Þau ánægjulegu tíðindi bárust sveitarfélaginu fyrir jól að samkomulag hefði náðst milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins um sérstaka viðbótarfjármögnun á þjónustu við fatlað fólk.
Samkomulagið byggir á því að útsvarsálagning sveitarfélaga hækki um 0.22% gegn samsvarandi lækkun tekjuskattsálagningar ríkisins þannig að breytingin hefur ekki áhrif á einstaklinga heldur skiptingu skatttekna milli sveitarfélaga og ríkis.
Til þess að samkomulagið nái fram að ganga þurftu allar sveitarstjórnir að samþykkja 0.22% hækkun útsvars fyrir áramót og þarf í framhaldinu að gera lagabreytingar á Alþingi. Bæjarstjórn Sveitarfélagisns Hornafjarðar samþykkti útsvarshækkunina á aukafundi sínum þann 22. desember sl.
Hér í Sveitarfélaginu Hornafirði hefur rekstur málaflokks fatlaðs fólks verið vanfjármagnaður af hendi ríkisins síðustu ár líkt og annarstaðar á landinu. Stöðugt er verið að aðlaga þjónustuna að einstaklingum sem eiga rétt á henni og þeim kröfum sem gerðar eru til sveitarfélagsins sem veitanda þjónustunnar með lögum og reglugerðum þar um.
Nýjustu dæmin eru efling verkefna í virkniþjónustu og vinna við reglur um akstursþjónustu bæði fyrir fólk með fötlun og fyrir aldraða.
Sú breyting sem verður á fjármögnun málaflokksins mun koma sér vel en er engan vegin næg til að brúa það bil sem myndast hefur í fjármögnun málaflokksins. Áfram er unnið að því á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við ríkið að finna lausn til framtíðar.
Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi og varamaður í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga.