Skýrsla bæjarstjóra af bæjarstjórnarfundi 15. apríl 2021.
Menningarhátíð
Föstudaginn 12. mars hélt sveitarfélagið sína árlegu hátíð í tengslum við veitingu menningar- og umhverfisverðlauna og styrkja. Sóttvarnar aðstæður voru heppilegar á þessum tíma og var því hægt að halda viðburðinn í Nýheimum ásamt því að við fengum að hlusta á frábæran tónlistarflutning í tengslum við blúshátíð sem haldin var sömu helgi. Alls voru 27 styrkir veittir og voru það styrkir atvinnu- og menningarmálanefndar, bæjarráðs, fræðslu- og tómstundanefndar, sem og styrkir úr atvinnu- og rannsóknarsjóði. Að þessu sinni hlaut Ingvar Þórðarson menningarverðlaun fyrir sitt ævistarf til menningarmála en Ingvar hefur verið einn af hornsteinum leiklistarlífs á Hornafirði um árabil. Þetta var fyrsti formlegi viðburðurinn sem sveitarfélagið stóð fyrir þar sem fólk gat hist frá því síðasta menningarhátíð var haldin fyrir ári síðan en í kjölfar hennar var samfélaginu lokað. Það var því sérstaklega ánægjulegt að geta verið saman í persónu við þetta tilefni.
Samningur um FabLab
Haldinn var rafrænn fundur á vegum Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Mennta- og menningarmálaráðuneytis 17. mars sl. þar sem voru undirritaðir samninga við allar FabLab smiðjur á landinu. Sveitarfélagið hefur frá stofnun FabLab smiðjunnar haft metnað til þess að gera það vel með því að ráða inn hæfan starfsmann sem heldur utan um starfið, heldur námskeið og er í góðum tengslum við aðrar smiðjur. Sveitarfélagið hefur staðið undir öllum rekstrarkostnaði smiðjunnar en það er eina smiðjan á landinu sem er rekin alfarið af sveitarfélagi. Það er því mikil viðbót að fá fjármagn inn í reksturinn frá ríkinu en samningurinn tryggir 8 m.kr. fjármagn til þriggja ára þ.e. 2021-2023. Nú þegar hefur fjármagni þessa árs verið ráðstafað en það var nýtt í endurnýjun á búnaði en verið er að endurnýja tölvur og kaupa nýjan laserprentara. Smiðjan er því orðin mjög vel búin tækjum. Við erum mjög þakklát og stolt að fá þessa viðurkenningu.
Fundarferð í Öræfin
Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hélt mars fund stjórnarinnar í Skaftafelli. Nú er unnið að framtíðarskipulagi fyrir Skaftafell og var nauðsynlegt að stjórnin kæmi í Skaftafell til að kynnast svæðinu betur. Fundir stjórnar eru almennt haldnir rafrænt en snertifundir eru haldnir einu sinni á ári á hverju svæði þ.e. Suður-, Vestur-, Norður- og Austursvæði. Ekki náðist að halda fund hér á Suðursvæði á síðasta ári vegna Covid. Samhliða stjórnarfundi kom Svæðisráð inn á fund stjórnar til að fjalla um framtíðarskipulag í Skaftafelli og önnur mál s.s. stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Breiðamerkursand. Nú er umsagnarfrestur vegna hennar liðinn og Svæðisráð hefur fjallað um þær. Stjórnunar- og verndaráætlunin á þá eftir að fá umfjöllun hjá stjórn þjóðgarðsins og svo mun Svæðisráð fá til sín uppfærða áætlun frá ráðgjöfum eftir leiðréttingar. Má því segja að vinnan sé alveg á lokametrunum og getur farið til samþykktar hjá ráðherra fyrir sumarið.
Íbúafundur í Öræfum
Samhliða fundarferð Vatnajökulsþjóðgarðs var ákveðið að boða til íbúafundar í Öræfum til að ræða skipulagsmál, veglínur, áhættumat vegna berghlaups, göngu- og hjólreiðastíg milli Svínafells og Skaftafells, skólamál í Hofgarði o.fl. Mjög góð mæting var á fundinn og allt innan sóttvarnarreglna. Miklar og góðar umræður sköpuðust á fundinum sem nýtast í áframhaldandi vinnu í stjórnsýslunni. Nú þegar er Umhverfis- og skipulagsnefnd með vegamálin til umfjöllunar og beðið er viðbragða frá Skipulagsstofnun varðandi áhættumat veðurstofunnar vegna berghlaupsins. Það styttist í framkvæmdir við göngu- og hjólastíginn en hönnun er á lokametrum. Það komu ábendingar varðandi nýju íbúabyggðina í Borgartúni en girða á svæðið í sumar ásamt því að hugað verður að gróðursetningu o.fl. Það er mikill hugur í Öræfingum enda töluverð fjölgun íbúa og íbúasamsetningin er að breytast en börnum hefur fjölgað í leikskólanum á undanförnum árum sem mun leiða til fjölgunar nemenda á grunnskólaaldri innan fárra ára.
Öldrunarmál
Við breytingar á rekstrarformi hjúkrunarheimilisins var tekin ákvörðun um að Dagdvöl aldraðra í Ekrunni mundi færast til sveitarfélagsins í stað þess að færast til Vigdísarholts og var það samkomulag beggja aðila. Við höfum unnið að því undanfarnar vikur að koma rekstrinum þar inn í bókhald sveitarfélagsins og inn í skipulag félagsþjónustunnar. Það fer vel af stað enda starfsemin í föstum skorðum.
Vigdísarholt hefur sagt upp leigusamningi við sveitarfélagið vegna leigu Víkurbrautar 26 sem hýsir Dvalarheimilið Mjallhvíti þar sem rekstraraðilar áforma flutning íbúanna yfir á hjúkrunarheimilið. Mikil óánægja er með áformin hjá íbúum og aðstandendum þeirra þar sem íbúar þurfa að flytjast úr einbýli yfir í tvíbýli. Málið hefur verið til umræðu hjá bæjarráði undanfarnar vikur ásamt því að ég hef rætt við íbúa, aðstandendur og forsvarsmenn Vigdísarholts um málið. Nú stefnir í að málin séu að leysast í sátt við íbúa og aðstandendur án þess að til flutnings komi og mun það verða leyst með samstarfi félagsþjónustunnar og Skjólgarðs. Unnið er áfram að því að kortleggja hvernig hægt verður að haga skipulagi á þjónustu til íbúanna þannig að öryggi þeirra verði tryggt.
Sveitarfélagið hefur einnig verið að auka við vikniþjónustu með tilkomu nýs starfsmanns á velferðarsviðinu bæði til eldri íbúa og einnig aðra þjónustuþega velferðarsviðs. Í boði eru tímar í íþróttahúsi, gönguferðir o.fl.
Framkvæmdir
Undirbúningur framkvæmda stendur nú sem hæst, skrifað hefur verið undir samning við verktaka vegna breytingar á Hrollaugsstöðum og munu framkvæmdir hefjast þar fljótlega. Tilboð voru opnuð vegna framkvæmda við jarð- og lagnavinnu við Hafnarbraut en í næstu viku munum við opna tilboð vegna yfirborðsfrágangs. Niðurstaða ætti að liggja fyrir varðandi Hafnarbrautina innan tveggja vikna og þá geta framkvæmdir hafist fljótlega. Útboð vegna breytinga innanhús í Sindrabæ er nú í auglýsingu og útboðsgögn vegna byggingu hjúkrunarheimilis eru í lokayfirferð hjá framkvæmdasýslu ríksins. Hafin er vinna við hönnun á aðstöðu til líkamsræktar við Sundlaug Hafnar en áætlað er að byggingarframkvæmdir þar geti hafist snemma á næsta ári. Hitaveituframkvæmdir standa nú yfir í þéttbýlinu og fyrstu húsin eru nú tengd við hitaveitu í Nesjahverfi og í dreifbýlinu.
Sóttvarnir – Covid
Reglur um sóttvarnir voru hertar verulega rétt fyrir Páska. Sveitarfélagið þurfti á ný að loka íþróttahúsi og sundlaug fyrir almennar æfingar en íþróttafélagið mátti halda úti skipulögðum æfingum án snertingar fyrir meistaraflokka. Við lokuðum fyrir heimsóknir í ráðhúsinu á ný og grunnskólinn fór fyrr í Páskafrí en áætlað var. Að þessu sinni voru engin smit hér í sveitarfélaginu sem betur fer en það er mikilvægt að farið sé varlega í kringum þessa veiru. Ég átti fund með Almannavörnum á Suðurlandi í vikunni þar sem meðal annars var rætt um fyrirkomulag bólusetninga. Fram til þessa hafa bólusetningar farið fram á heilsugæslustöðinni en von er á fleiri bólusetningarskömmtun á næstunni og þarf mögulega að breyta fyrirkomulaginu í samstarfi við sveitarfélagið. Það er í skoðun en það er hagur allra að bólusetningar gangi sem hraðast fyrir sig. Í dag tóku í gildi rýmri sóttvarnarreglur og getum við nú opnað ráðhúsið, sundlaugina og börn geta æft íþróttir. Vonandi munu bólusetningum fjölga hratt þannig að samfélagið komst fyrr í eðlilegri skorður.
Nú hækkar sól hratt á lofti og lofthiti óðum að hækka eftir kuldakast undanfarna viku. Farfuglarnir eru nú óðum að koma til okkar aftur enda sumardagurinn fyrsti í næstu viku. Við vonum að sjálfsögðu að ferðasumarið verði gott og Íslendingar munu verða hér sýnilegir allt sumarið ásamt því að erlendir ferðamenn komi hingað til lands þrátt fyrir þær takmarkanir sem í gildi eru. Í Eystrahorni sem kom út í dag er auglýst eftir sumarstarfsfólki hjá sveitarfélaginu en líkt og í fyrra munum við bjóða námsmönnum á framhalds- og háskólaaldri störf í samstarfi við Vinnumálastofnun. Stjórnendur munu skipuleggja verkefni eftir þörfum en í fyrra voru sumarstarfsmenn almennt ánægðir með þau verkefni sem í boði voru og skiluðu góðri vinnu til sveitarfélagsins.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri