Að halda gleðinni

394

Margt í okkar daglega lífi sem áður var sjálfsagt er ekki lengur til staðar.  Ekki er hægt að fara í sund eða líkamsrækt og skipulagt félags- og íþróttastarf hefur verið lagt niður timabundið.  Hjá mörgum er það því áskorun að finna leið til að bæta upp fyrir það sem skortir í hreyfingu og félagsskap. Alltaf má þó finna leiðir og mikilvægt er að vera jákvæður og leita lausna.

Hreyfing

Það skortir ekki hollráðin um hreyfingu og matarræði, oft og iðulega tengt við eftirsóknarverðan lífstíl.  Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir hreyfing og mataræði þó einkum máli til að halda í góða heilsu og góða geðheilsu.  Dagleg hreyfing þarf ekki að vera flóknari en góður göngutúr til að gefa góð áhrif.  Um síðustu helgi lék veðrið við okkur. Margir fóru í golf og þá var eftirtektarvert hvernig 2ja metra fjarlægðin var virt en samt naut fólk þess að hittast og heilsast.  

Hér eru margir staðir frábærir til útivistar sem ekki þarf að tíunda.  Stæsta og oft erfiðasta skrefið er oft að klæða sig í fatnað sem tilheyrir veðrinu og fara af stað.  Iðulega kemur maður heim hressari en þegar lagt var af stað.  Best er að láta veðrið ekki sigra andann og bara klæða sig við hæfi.  Það er gott að hafa í huga að mótlætið eflir.  Sama á við um hreyfingu, hressandi er að hafa mótvind eða brekku í andlitið.  Það er margt hægt að gera þrátt fyrir samkomubann, eins og að hjóla, ganga, spila golf, fara til fjalla, sippa, dansa eða eitthvað sem ekki krefst meiri nálægðar en tvo metra.

Félagsskapur

Netið kemur ekki í stað nándar.  Hins vegar hjálpar það mikið til í þessum undarlegu aðstæðum sem við lifum í dag. Dæmi eru um að kórar haldi æfingar yfir netið og það er aðdáunarvert.  Margir vinnustaðir vinna nú yfir netið í stað þess að vera undir saman þaki.  Ástvinir sem ekki mega hittast þessar vikurnar ná að sjá hvort annað í gegnum myndspjall á netinu, það kemur að hluta til móts við þörf okkar að hittast og við náum að skynja betur líðan þess sem við tölum við. Tæknin hefur létt okkur mörgum hverjum lífið á þessum tímum og margir farið á hraðnámskeið í tölvumálum sem mun nýtast okkur áfram í lífinu.

Maður er manns gaman og mikið verður gott að geta hitt og knúsað fjölskyldu og vini sem ekki má í dag – en þangað til. Hugsum vel um okkur sjálf og gleymum ekki gleðinni!

Ásgerður K. Gylfadóttir