Í útvarpinu les Ármann Jakobsson hina mögnuðu Brennu-Njáls sögu. Samhliða eru vikuleg viðtöl við Ármann í Víðsjá á Rás 1 þar sem hann greinir söguna og skýrir. Það má hiklaust mæla með að hlusta á þetta allt. Auðvelt er að nálgast þetta á RÚV sarpinum eða í RÚV appinu. Lestur Ármanns er mjög góður og skemmtilegur.
Helsta sögusvið Njálu eru Rangárvellir, Fljótshlíð og Landeyjar. En hún kemur víðar við bæði innanlands og erlendis. Hornafjörður er nefndur nokkrum sinnum, meðal annars í tengslum við utanferð Flosa eftir brennuna.
Örnefni hér benda enda til þess að til forna hafi verið höfn í Hornafirði. Festarklettar, Leiðarhöfði og sjálf Höfn benda í þessa átt. Í sögunni eru nefnd bæjarnöfn sem ennþá þekkjast eins og Stafafell og Bjarnanes en líka eru örnefni sem ekki finnast í dag. Ber þá helst að nefna Breiðá í Fellshverfi þar sem Kári bjó eftir sættir við Flosa. Kári hefur ekki verið setur á neitt kotbýli og þarna hefur því verið blómleg byggð á þeim tíma sem sagan gerist, um árið 1000. Núna ræður Breiðamerkurjökull þar ríkjum.
Það er vitað að við landnám var veðurfar mun hlýrra en síðar varð á Íslandi. Þess vegna voru jöklar minni og skriðjöklar sem við sjáum í dag ekki allir til. Það er gaman að ímynda sér hvernig umhorfs var á þessum tíma.
Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands. Landið hefur margt upp á bjóða, bæði sögustaði og náttúruperlur. Það verður ekki mikið þjóðlegra en að spyrða saman hlustun á Brennu Njáls sögu og ferðalög um sveitir og bæi innanlands.