Hafnarmál

521

Innan hafnar

Í vetur var boðin út, í samvinnu við Vegagerðina, dýpkun innan Hornafjarðarhafnar fyrir næstu fjögur ár eða til og með árinu 2026 með möguleika á framlengingu verksamnings um 2 ár. Boðin var út 120.000 m³ dýpkun sem er gert ráð fyrir að verði framkvæmd í þremur dýpkunarlotum en það gæti þó breyst síðar. 

Ekki hefur verið dælt úr höfninni síðan árið 2021 en þá var ytri hluti hafarinnar dýpkaður vegna loðnuvertíðar. Næsta reglulega dæling hefði átt að vera á seinasta ári en vegna dælingarinnar árið áður þurfti þess ekki. Bjóða átti út viðhaldsdýpkun á seinasta ári en það tafðist þangað til í ár. Á dögunum voru tilboð í verkið opnuð og var niðurstaðan sú að gengið var til samninga við lægstbjóðanda sem var Dýpkunarfélagið Trölli ehf. en félagið er í eigu aðila í heimabyggð. Það er mikill akkur í að hafa aðila sem þessa hér í nærsamfélaginu sem eru tilbúnir að eiga og viðhalda eins sérhæfðum búnaði eins og þarf í svona verkefni, sérstaklega þegar sértæk verkefnin sem þessi eru ekki fleiri en raun ber vitni.

Grynnslin

Fréttir af grynnslunum eru því miður ekki eins jákvæðar. Á vordögum seinasta árs var boðin út dýpkun, einnig í samvinnu við Vegagerðina, á svokölluðum Grynnslum sem er svæðið frá innsiglingunni við Hvanney og út á dýpri sjó. Töluverðar rannsóknir hafa verið gerðar á þessu svæði undanfarin ár af danska fyrirtækinu DHI (Danish Hydraulic Institute) í samvinnu við Vegagerðina og sveitarfélagið til að reyna að sjá fyrir hvaða áhrif dýpkun mundi hafa á svæðið. Ákveðið var að bjóða út dýpkun og tilboð í hana voru síðan opnuð 21. júní á seinasta ári. Það var fyrirtækið Björgun ehf. í Reykjavík sem urðu lægstbjóðendur í verkið og var gengið til samninga við þá. Tilboð þeirra var upp á tæplega 126 milljónir kr. Hlutdeild sveitarfélagsins í verkinu er 25% á móti 75% hlut ríkisins. Upphaflega stóð til að dæluskip þeirra kæmi í september á seinasta ári og mundu ljúka verkinu fyrir 30. sama mánaðar eins og útboðsgögn gerðu ráð fyrir. Dýpkunarskipið þeirra, Álfsnes, kom hins vegar ekki fyrr en í október og byrjaði að dýpka 22. þess mánaðar. Skipið fór síðan af staðnum, til annara verkefna sem búið var að lofa því í, 4. nóvember s.l. 

Áður en skipið fór af staðnum hafði það dýpkað u.þ.b. 52 þús. m³ af þeim 130 þús. m³ sem stefnt var að taka skv. útboðinu eða u.þ.b. 40% af heildarmagninu. Með útboðinu átti að dýpka rennu í grynnslunum niður á 9,5 m dýpi og síðan fylgjast með því hvernig hún mundi haga sér í framhaldinu með reglubundnum mælingum. En eins og rúmmetratölurnar hér að ofan gefa til kynna náðist aldrei að dýpka niður á það dýpi sem lagt var upp með. Til stóð að skipið kæmi aftur seinna í vetur til að klára verkið en ekkert hefur orðið úr því ennþá. Hlutdeild sveitarfélagsins í því sem dælt var reyndist u.þ.b. 11,7 milljónir kr. Nú benda mælingar til þess að rennan sem dýpkuð var sé aftur komin í sama horf og fyrir dælingu. 

Einnig hafa, í það minnsta, stóru uppsjávarskipin verið að taka niður í grynnslunum í vetur sem eru ekki góðar fréttir. Það er miður að ekki hafði verið klárað að dýpka Grynnslin niður á það dýpi sem lagt var upp með til að geta séð hvernig þau mundu haga sé í framhaldinu. Eins hvort að straumurinn í Ósnum mundi ná að halda rennunni opinni lengur ef dýpkað yrði niður á það dýpi sem lagt var upp með. Líklegt er að rennan hefði fyllst aftur eins og reiknilíkön hafa spáð fyrir um en fróðlegt hefði verið að sjá hverslu langan tíma það tæki í raun. Og fá þannig betri upplýsingar til að undirbyggja frekari ákvarðanatöku að hálfu sveitarfélagsins og Vegagerðinnar varðandi málið.

Verði ákveðið að klára dýpkunina á grynnslunum á þessu ári hefst verkið samt á byrjunarreit og sveitarfélagið greiðir sinn skerf af kökunni og þ.a.l. aftur fyrir sinn hlut af því magni sem búið var að dýpka fyrr í vetur, þó að sá hluti sem verður dýpkaður síðar verð óverðbættur.

Það er mjög mikilvægt fyrir sveitarfélagið og framtíð þess að aðgengi að innsiglingunni og höfninni okkar utan af sjó verði tryggð fyrir skipaflota svæðisins. Yfirvöld samgöngumála landsins þurfa því að tryggja stofndýpkun og reglulega viðhaldsdýpkun á grynnslunum með sanngjarnri kostnaðarskiptingu milli sveitarfélagsins og ríkisins til að svo megi verða.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúi og aðalmaður í Hafnarstjórn.