Mikligarður

528

Undanfarin ár hef ég ritað og rætt töluvert um Miklagarð það fornfræga hús með það að leiðarljósi að kveikja megi þar líf og koma því húsi í einhverskonar notkun. 

Þess vegna urðu mér það töluverð vonbrigði þegar nýr meirihluti stöðvaði undirbúning fyrirhugaðra framkvæmda á síðasta ári og setti ekkert fjármagn í áframhaldandi endurbætur á þessu ári né í 3ja ára áætlun.

Með flutningi á Gömlubúð, sölu á Pakkhúsinu, sölu á sláturhúsinu og fleiri jákvæðum þáttum hefur ásýnd og umgjörð hafnarsvæðisins breyst mikið og er orðin aðlaðandi og eftirsóknarvert svæði til að skoða og njóta. 

En Mikligarður er stór hluti í  þessu skemmtilega mengi og verðum við þar af leiðandi að gefa Miklagarði hlutverk og halda áfram. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp í gegnum tíðina og einhverjar skýrslur eru til sem hægt væri að styðjast við. 

Ein hugmyndin var að Vatnajökulsþjóðgarður færi þar inn með skrifstofur og gerð yrði jöklasýning í hluta húsins, var það hugsað til næstu 7 til 8 ára meðan unnið væri að undirbúningi að nýju húsnæði þjóðgarðsins en sú hugmynd var slegin út af borðinu sem eru virkileg vonbrigði og illa ígrundað.

Ég hef velt því fyrir mér undanfarið þar sem áhugi núverandi meirihluta á Miklagarði virðist vera lítill sem enginn hvort ekki sé rétt að selja húsið með skilyrðum. Hver veit nema einhverjir eldhugar myndu kaupa líkt og er að gerast með sláturhúsið, ég held að það sé rétt að velta upp öllum hugmyndum því það versta sem getur gerst er að horfa upp á Miklagarð grotna niður vegna aðgerðarleysis bæjaryfirvalda.

Kristján Sigurður Guðnason, formaður Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga.