Vetrarþjónusta á þjóðvegi 1

290

Í vetur hafa þær aðstæður skapast að þjóðvegur 1 á Suðurlandi hefur verið lokaður í lengri og skemmri tíma vegna veðurs og hreinsunar vegna veðurs.

Hellisheiðin hefur reynst farartálmi og lagði bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fram eftirfarandi áskorun til ríkisstjórnarinnar á bæjarstjórnarfundi 9. febrúar síðastliðinn:


,,Bæjarstjórn Hveragerðis skorar á ríkisstjórnina að veita auknu fjármagni til Vegagerðarinnar vegna snjómoksturs á Hellisheiði til að tryggja betri samgöngur á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurlandsundirlendis.

Tryggja þarf öryggi vegfarenda, tryggja þarf greiðar samgöngur vegna sjúkraflutninga sem og aðgengi íbúa á Suðurlandi við höfuðborgarsvæðið þar sem fjöldi Sunnlendinga stundar sína atvinnu. Einnig skorar bæjarstjórn Hveragerðisbæjar á ríkisstjórnina að huga að framtíðarlausnum, á þessum fjölfarnasta vegkafla landsins, til að bæta megi umferðaröryggi.“


Áskorunin var send á þingmenn Framsóknar í kjördæminu og þau hvött til dáða við að fylgja þessu máli eftir með það fyrir augum hvernig best megi mæta öfgum í veðri og fyrirbyggja ferðatafir þar sem vitað er að álagspunktar eru.


Þjóðvegur 1 um Suðurland er einn stærsti ferðamannastaður landsins. Um 80% erlendra gesta sem sækja landið heim ferðast um Suðurland og njóta áfangastaða frá Hveragerði til Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Umferð erlenda gesta sem óvanir eru akstri á vetrartíma í misjöfnum veðrum, gulum og appelsínugulum viðvörunum, hálku og snjó er áskorun sem þarf að bregðast við auk þess sem vöruflutningar með t.d. vistir í verslanir og viðkvæman afla fiskiskipa eru einnig viðkvæmir fyrir ferðatöfum. Auk þessa vinnur fjöldi fólks af höfuðborgarsvæðinu austan Hellisheiðar og öfugt.


Því skorum við undirritaðar ráðherra og þingmenn að leita leiða til að veita bestu vetrarþjónustu sem völ er á um Suðurland allt. Tryggja hæsta þjónustustig fyrir alla vegfarendur og með því auka öryggi þeirra og íbúa með tilliti til aðgengis og umferðar viðbragsðaðila s.s. lögreglu-, sjúkra- og slökkiliðs.


Ásgerður Kristín Gylfadóttir,
bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknar í Sveitarfélaginu Hornafirði, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.


Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði, í stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.