Í upphafi nýs árs

376

Ég óska öllum gleðilegs nýs árs með þökk fyrir liðnar stundir. Þegar litið er um öxl til nýliðins árs er af mörgu að taka. Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga var leitað að áhugasömum einstaklingum til þátttöku í starfi Framsóknar og stuðningsmanna þeirra. Ég hef lengi haft áhuga á málefnum sveitarfélagins og lét það í ljós þó svo að ég hafi í fyrstu ekki verið viss um hvort ég væri tilbúinn að stökkva í djúpu laugina. Það leiddi hinsvegar til þess að ég ákvað að gefa kost á mér í þriðja sæti á lista og vonast til þess að geta látið gott af mér leiða. Nýgræðingurinn barði sér brjóst og undirbúningsferlið var skemmtilegt þar sem maður kynntist nýju fólki, sá nýjar hliðar á fólki sem maður áður þekkti og fór að horfa á hlutina með nýjum gleraugum. Málefni sem maður þekkti inn og út, að því er talið var, sá maður frá öðru sjónarhorni og fékk á þeim nýja sýn. 

Hlakka til kjörtímabilsins framundan.

Niðurstöður kosninganna voru ekki í samræmi við væntingar. Þrátt fyrir það þá er mikil tilhlökkun til að takast á við málefni sveitarfélagsins og leggja lóð mín á vogarskálarnar sem varabæjarfulltrúi. Fá að kynna mér málefni sveitarfélagsins sem tekin eru fyrir hverju sinni og taka þátt í undirbúningi fyrir fundi með fulltrúum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Einnig að sitja í atvinnu- og menningarmálanefnd sem fer með þennan mikilvæga málaflokk. Á síðasta kjörtímabili var vel unnið að málum og framkvæmdum innan sveitarfélagsins. Rekstur sveitarfélagsins var í góðum málum og má meðal annars þakka það útsjónarsemi og hagsýni kjörinna fulltrúa og starfsmanna. Það er mikilvægt að svo verði áfram og munum við leggja okkar að mörkum að tryggja það ásamt nýjum meirihluta. Ég sem græningi í bæjarmálum finn að mikilvægt er að vera með fólk í kringum sig sem hefur reynslu og er það einn af okkar styrkleikum að vera með reynslumikið fólk. Ég get því ímyndað mér áskorunina sem liggur fyrir fulltrúum hinna framboðanna í sveitarfélaginu að leiða sveitarfélagið, þar sem þau standa mér jafnfætis hvað varðar reynslu af sveitarstjórnarstörfum.

Margt spennandi framundan.

Mörg mál hafa farið í gegnum stjórnsýsluna á síðasta misseri, misstór eins og gefur að skilja. Stórir áfangar hafa náðst sem tekið hafa langan tíma í undirbúningi, minni mál hafa farið í gegn og svo eru spennandi verkefni komin inn sem eftir á að leysa. Má þar nefna húsnæðismál Vatnajökulsþjóðgarðs og Gömlubúð, skipulagning nýrra íbúðasvæða, endurskoðun aðalskipulags og fleiri spennandi verkefna. Áhugavert var að rýna fjárhagsáætlun meirihlutans síðastliðiðhaust og reyna að spegla stefnumálin í áætluninni. Ríkar hugmyndir voru uppi um uppbyggingu íþróttamannvirkja, þróun sorphirðu í dreifbýli og aukin safna- og menningarstarfsemi. 

Nýtt ár, nýjar áskoranir, ný tækifæri fyrir sveitarfélagið okkar og ég er fullur tilhlökkunar að sjá hvaða verkefni bíða í framtíðinni. 

Gunnar Ásgeirsson, varabæjarfulltrúi og aðalmaður í atvinnu- og menningarmálanefnd.