Við og samfélagið okkar.

608

Jæja gott fólk, senn líður að kosningum og flestir búnir eða alveg að verða búnir að gera upp hug sinn hvar setja skuli xið þann 14 maí næstkomandi. Vikan fyrir kosningar er alltaf spennandi og heilabúið í yfirvinnu við að melta það sem hefur verið farið yfir og sagt síðustu vikur.

Ég er nú meira fyrir að taka samtalið en skrifa svona pistil og kveinkaði mér aðeins þegar ég var beðinn um nokkur orð á blað. En fór að velta fyrir mér samtölum mínum við íbúa sveitarfélagsins í þessu brölti mínu. Þau hafa verið virkilega áhugaverð og skemmtileg, hvort sem viðkomandi er með kosningarétt eður ei sem þeir voru ekki allir. 

Það sem situr eftir er að það er mikilvægt að við temjum okkur kurteisi og samvinnu, óháð stöðu eða hag. Það að hlusta með opnum hug og bera virðingu fyrir skoðunum annarra. 

Ég t.d ræddi við einstakling sem var algerleg óður út í vissa framkvæmd og ég ætlaði mér ekkert að reyna breyta þeirri skoðun hans enda alger óþarfi, ég hlustaði á hans sjónarhorn og hugmyndir varðandi verkefnið og eftir nokkuð langt samtal tókumst við í hendur og við kvöddumst með bros á vör með sitthvora skoðunina á málinu.

Flest höfum við skoðanir á málum eða máli er snúa að sveitarfélaginu okkar og er engin hugmynd eða skoðun verri en hver önnur.  Það er gott að koma öllum hugmyndum á framfæri og ræða þær, því í skrítnum og kannski ógerlegum hugmyndum leynist kannski ein, hugsanlega tvær góðar sem bætt gæti samfélagið okkar fyrir komandi kynslóðir. 

Í þessum kosningum er mikil endurnýjun á listum og sem einn af þeim nýju veit ég að það verður margt að læra til að geta sinnt vel þeim verkefnum sem okkur verða falin. Mikill mannauður og þekking er í fólkinu sem hefur mótað samfélagið okkar til dagsins í dag með þrotlausri vinnu og dugnaði, verum ekki feimin við að leita til þeirra eftir ráðleggingum, það er alger óþarfi að eyða tíma í að finna upp hjólið. 

Höfum “ÖLL” að leiðarljósi að vinna saman að því að gera samfélagið okkar að því besta á Íslandi. Styðjum og stöndun með hvort öðru, sérstaklega þegar við sjáum að einhverjum líður illa eða þarf aðstoð, minnum hvort annað reglulega á að lífið er núna og framtíðin er björt í Sveitarfélaginu Hornafirði. 

Lars J. Andrésson Imsland, framkvæmdastjóri, East Coast Travel ehf, 11. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna