Gjaldfrjálsar náms- og vettvangsferðir grunnskólabarna

166

Það er nokkuð augljóst að við búum í fallegustu sýslu landsins með sjálfan Vatnajökulsþjóðgarð í næsta nágrenni. Náttúrufegurðin umlykur okkur og stutt að fara til að njóta.

Nemendur Grunnskóla Hornafjarðar fá svo sannarlega að upplifa þetta enda farið í náms- og vettvangsferðir með hvern árgang á mismunandi slóðir og verða ferðirnar umfangsmeiri eftir því sem nemendur verða eldri.

Ég hef alltaf verið hrifin af því hjá grunnskólanum hvað hann nýtir náttúruperlur svæðisins vel til að kynna fyrir krökkunum og flétta það inn í námsefnið. Hvort sem það er að fara í berjamó, fjallgöngur, dagsferð út í Ingólfshöfða eða í Lónsöræfi. Þarna skapast minningar, þetta er góð útivera og börnin læra að bera virðingu fyrir náttúrunni og umhverfinu. 

Eitt af meginmarkmiðum í umhverfis- og loftslagsstefnu sveitarfélagsins er einmitt umhverfisfræðsla. Leiðir að því markmiði eru einmitt að börnin þekki umhverfi sitt og fræðsla. Hvar er betra að fræðsla um umhverfis- og loftslagsmál fari fram en úti í náttúrunni?.

Á fyrri kjörtímabilum hefur Framsókn lagt fram tillögur sem voru samþykktar sem snúa að velferð og hagsmunum barna í sveitarfélaginu þegar kemur að hækkun tómstundastyrks, frítt í sund fyrir börn að 18 ára aldri og að fella niður gjaldtöku á ávaxtabita í grunnskólanum.

Nú viljum við ganga lengra og vinna að því að náms- og vettvangsferðir nemenda verði gjaldfrjálsar. En nemendur greiða nú uppihald í þessum ferðum sem er skilgreint sem fæði og gisting. Við vitum að tómstundir eru góð forvörn en það er líka góð ganga úti í náttúrunni með bekkjarfélaögunum.

Guðrún Sigfinnsdóttir, mótttökuritari, 9. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.