Fjölmenningarráð, rétt ákvörðun!

610

Hér í sveitarfélaginu búa um 560 manns af erlendum uppruna af u.þ.b. 40 mismunandi þjóðernum. Fram kom í grein Nejru um stofnun fjölmenningarráðs í Sveitarfélaginu Hornafirði sem birt var á Leiðarhöfða fyrir rétt tæpu ári síðan, að skýr stefna og gott utanumhald í málefnum nýbúa er nauðsynleg. Frá stofnun fjölmenningarráðs árið 2021, sem í sitja 5 fulltrúar nýbúa auk verkefnastjóra fjölmenningar, hafa fulltrúar þess fundað annan hvern mánuð og eru málefnin sem þar eru tekin fyrir jafn fjölbreytt og þau eru mörg. 

Mannréttindastefna

Meðal annars hefur verið rætt um mikilvægi heildarstefnumótunar á borð við mannréttindastefnu í stað sérstakrar fjölmenningarstefnu. Við teljum það vera skynsamlega leið enda miðar slík stefna að því að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu, og erum við tilbúin að styðja við þá vinnu sem framundan er við mótun hennar. 

Aukin upplýsingagjöf

Á þessu kjörtímabili hefur margt áunnist í upplýsingagjöf til nýbúa og eru þær mun aðgengilegri en áður. Meðal annars er nú flipi á forsíðu vefsíðu sveitarfélagsins sem ber heitið „multicultural“ þar sem hægt er að finna allar helstu upplýsingar fyrir nýbúa á rafrænu formi, svo sem upplýsingabækling um íþrótta- og félagsstarf, tómstundastyrk og notkun nora kerfisins, túlka- og þýðingaþjónustu auk margs annars. Auk þess er nú boðið upp á „google translate“ valmöguleikann, sem er einföld leið til að þýða heimasíðu sveitarfélagsins yfir á 34 tungumál. 

Samfélagsmiðillinn Facebook hefur einnig verið notaður til að bæta upplýsingagjöf enn frekar með stofnun síðunnar „Living in Hornafjörður“ sem er stýrt af verkefnastjóra fjölmenningar og fulltrúum fjölmenningarráðs. Nú í aðdraganda kosninganna hefur mikil áhersla verið lögð á að nýbúar séu vel upplýstir um réttindi sín og þeir hvattir til að nýta þau í komandi kosningum. Við hvetjum Hornfirðinga til þess að gerast meðlimir að síðunni og láta aðra vita sem þið teljið geta nýtt sér hana.

Fjölmenningarráð fest í sessi

Við teljum að stofnun fjölmenningarráðs hafi verið rétt ákvörðun og að þar sé mikilvægt starf unnið með góðu utanumhaldi Hildar Ýrar, verkefnastjóra fjölmenningar og eru margar góðar hugmyndir og brýn verkefni enn í mótun. Við viljum áfram sjá virka þátttöku íbúa af ólíkum uppruna úr þéttbýli og dreifbýli í verkefnum, nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins. Þar að auki teljum við ríka ástæðu til að auka enn frekar samtal fulltrúa fjölmenningarráðs við kjörna fulltrúa og koma á árlegum fundi ráðsins við bæjarstjórn.

Íris Heiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri 5. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.

Nejra Mesetovic, ferðamálafræðingur og verkefnastjóri, 13. sæti á lista Framsóknar og stuðningsmanna.