Þann 14. maí næstkomandi ganga íbúar Sveitarfélagsins Hornafjarðar til kosninga. Ég skipa sjöunda sæti lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra. Fyrir þá sem ekki vita, heiti ég Þórdís Þórsdóttir og starfa sem sérkennari hjá Grunnskóla Hornafjarðar. Ég er 39 ára gömul og er gift Guðjóni Björnssyni, húsasmið og á með honum tvö börn.
Ég er alger nýgræðingur þegar það kemur að bæjarmálum og það er helst þess vegna sem ég ákvað að bjóða mig fram til sveitastjórnarkosninga þetta árið. Mig langar til að kynnast betur þessu hlutverki og setja mig inn í málin. Ég tel mig eiga auðvelt með samskipti og get vonandi átt gott samtal við íbúa sveitarfélagsins er varðar málefni sýslunnar, þannig langar mig að leggja mitt af mörkum til þess að móta framtíðarsýn sveitarfélagsins. Ég er mjög bjartsýn á að hingað muni vilja flytja fleira fólk á næstu árum og því er ekki seinna en vænna að ákveða hvernig sé best að skipuleggja ný byggingarsvæði í sveitarfélaginu.
Þegar ég flutti hingað árið 2009 var aðeins eitt hús til sölu og mörg ár síðan einhver hafði byggt sér hús. Ég sá strax að þetta yrði að breytast ef sveitarfélagið ætlaði sér að stækka og þróast áfram. Nú 13 árum seinna, hafa allmörg hús verið byggð, komið mjög gott úrval af veitingarstöðum og lítur út fyrir að bjartir tímar séu framundan í sveitarfélaginu okkar.
Eitt af því sem heillaði mig við Höfn (fyrir utan náttúrufegurðina) var að hér var allt til staðar sem uppfyllti mínar grunnþarfir þ.e.a.s hér var fínasta matvörubúð, frábær sundlaug og góð líkamsræktarstöð. Nú er miðsvæðið í skipulagsferli, og áætlar sveitarfélagið að byggja m.a. nýja líkamsræktarstöð og nýtt íþróttahús. Fyrsti áfangi felst í því að byggja nýja líkamsræktarstöð og er það vegna þess að dágóð upphæð fer nú þegar í að styrkja núverandi líkamsræktaraðstöðu í Sporthöllinni. Mikill rekstarsparnaður mun hljótast af því að byrja á byggingu líkamsræktarstöðvar og því tilvalið að nýta tímann í að hefja þá byggingu strax meðan verið er að útfæra nýtt íþróttahús á sem bestan hátt.
Ég mæli því eindregið með því fyrir ungt fólk að setjast hér að. Hér er gott að búa og ala upp börn. Ég hlakka til að taka þátt í að móta framtíðarsýn samfélagsins með ykkar stuðningi við Framsókn og stuðningsmenn þeirra á kjördag, X-B!
Þórdís Þórsdóttir, sérkennari.
7. sæti Framsóknar og stuðningsmanna þeirra