Hornafjörður – til sjávar og sveita

850

Gunnar Ásgeirsson heiti ég og skipa 3. sæti lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra. Ég er uppalinn Hafnarbúi en er nú búsettur í Nesjum. Ég er menntaður sjávarútvegsfræðingur og er mitt aðalstarf við sjávarútveg. Einnig er ég með búskap heima þar sem ég bý með nokkrar kindur, hross og tvo fjárhunda. Búskapurinn, ásamt útivist og tónlist eru mín aðal áhugamál. Í gegnum tíðina hef ég verið þáttakandi í tónlistarlífi á Höfn, meðal annars sem undirleikari hjá Gleðigjöfum, kór eldri Hornfirðinga frá 12 ára aldri, þó með hléum.

Hlúum að atvinnu í sveitum

Í sveitarfélaginu hefur atvinnuástand verið gott þó svo að heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn síðastliðin tvö ár. Á sama tíma sköpuðust tækifæri. Hér hafa skapast ný störf, sum hefðbundin en önnur ný fyrir tilstuðlun nýsköpunar og þróunar. Það er mikilvægt fyrir okkar samfélag að hér séu frumkvöðlar studdir sín fyrstu skref. Í sveitum hefur bændum farið fækkandi á síðustu misserum og eru blikur á lofti um að þróunin verði þannig áfram, landbúnaðarkerfið á Íslandi er þungt og verð á aðföngum hækkar. Okkur er nauðsynlegt að halda byggð í sveitum og reynir því á íbúa sveitanna að hugsa út fyrir rammann til að sjá sér fyrir lífsviðurværi. Síðastliðið haust lauk hér langri sögu búfjárslátrunar. Þurfa því bændur nú að senda búpening sinn um langan veg til að fá þeim slátrað. Á teikniborðinu er þjónustusláturhús sem á að rísa á Höfn. Það er draumur minn að bændur sjái tækifæri í því og muni nýta sér þá þjónustu til að byggja upp aðstöðu til matvælavinnslu heima fyrir og tryggja með því atvinnu og auka verðmætasköpun hér á svæðinu sem er mikilvægt. Sveitarfélagið hefur einnig greitt götu þeirra sem sækjast í störf án staðsetningar. Þar er sóknartækifæri fyrir Hornfirðinga og er vonandi að sem flestir nýti sér í framtíðinni að geta búið í Sveitarfélaginu Hornafirði og stundað atvinnu við hæfi. 

Hugsum stórt og stækkandi

Á kosningadag, þann 14. maí næstkomandi, gefst íbúum sveitarfélagsins tækifæri til að kjósa um nýtt aðal- og deiliskipulag um þéttingu byggðar í Innbæ. Þar er kosið samkvæmt ósk íbúa og er liður í auknu samtali við íbúa sem Framsókn og stuðningsmenn þeirra hafa stuðlað að m.a. með breytingu á hlutfalli kjósenda sem óskað geta eftir almennri atkvæðagreiðslu samkvæmt 65. gr. í samþykktum sveitarfélagsins úr 25% í 20%. Þétting byggðar á Höfn hefur verið í umræðunni í langan tíma og er kominn tími á að niðurstaða fáist svo hægt sé að halda áfram veginn. Á síðustu árum hefur mikil uppbygging átt sér stað í sveitarfélaginu, hvor tveggja í þéttbýli og dreifbýli. Engin teikn eru á lofti um að áhugi á frekari uppbyggingu fari dvínandi. Því verður að skipuleggja stærra og meira íbúðahverfi á Höfn og verður það að gerast hratt. Í nýju skipulagi þarf að gera ráð fyrir nýjum þjóðvegi í þéttbýli, sem er brýnt að við fáum í gegn fljótt þar sem það er grundvöllur þess að losna við þungaumferð í gegnum bæinn og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi. Þungaumferð í kringum skóla og íþróttamannvirki þar sem unga fólkið okkar er gangandi er ekki boðleg. Í nýju skipulagi þarf einnig að gera ráð fyrir annarri þjónustu og innviðum til að anna vaxandi samfélagi. Ekki má gleyma uppbyggingu í sveitum, en halda þarf áfram með deiliskipulagningu í dreifbýli svo fólki gefist kostur á að byggja sér híbýli utan þéttbýlisins. Í skipulagsmálum þarf að hugsa stórt til að hlúa að þeim vilja til uppbyggingar sem hefur verið hér til staðar á síðustu misserum.

Hvað er best að kjósa?

Það er mikilvægt fyrir íbúa sveitarfélagsins að hafa á bak við sig þéttan og breiðan hóp fólks sem samanstendur af reynslumiklu fólki í sveitarstjórnarmálum og öðrum sem koma ferskir inn í starfið með nýja sýn á hlutina. Á lista Framsóknar og stuðningsmanna þeirra er fólk sem kemur úr öllum áttum en á það sameiginlegt að láta sig byggðina sína og þróun hennar varða.

Gunnar Ásgeirsson, bóndi og vinnslustjóri
3. sæti Framsóknar og stuðningsmanna þeirra