Hringrásarhagkerfi, skref fyrir skref

242

Umhverfis- og loftslagsmál eru ein af megin stoðum stefnumótunar sveitarfélagsins –„Hornafjörður, náttúrulega!“ Þar er áherslan á að sveitarfélagið sé leiðandi í umhverfis- og loftslagsmálum. https://www.hornafjordur.is/media/stefnur/20210622-Hornafjordur-natturulega.pdf

Unnið hefur verið að fjölmörgum skrefum að bættri úrgangsstjórnun í átt að hringrásarhagkerfinu á síðustu árum með góðum árangri á fjölmörgum sviðum.  Sorpflokkun við heimili hefur fest sig í sessi og hafa íbúar staðið sig vel. 

Sameiginlegt verkefni

Um tuttugu fyrirtæki taka þátt í Loftslagsyfirlýsingu Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Festu – miðstöðvar um sjálfbærni og samfélagsábyrgð, um stuðning við loftslagsaðgerðir fyrirtækja og stofnanna í sveitarfélaginu sem undirrituð var þann 26. febrúar 2021.

Auk þessa eru ýmis verkefni í gangi í sveitarfélaginu á vegum íbúa og félagasamtaka s.s. Hirðingjarnir, Pokastöðin Hornafjörður, Gróska – félagslandbúnaður og Umhverfissamtök Austur-Skaftafellssýslu sem miða öll að eflingu hringrásarhagkerfisins með endurnýtingu og sjálfbærni að leiðarljósi.

Öll þessi verkefni styðja við þá stefnu að Sveitarfélagið Hornafjörður sé framfaradrifið sjálfbært fyrirmyndar samfélag þar sem fólk býr í sátt og samlyndi við náttúruna. 

Greining úrgangsstrauma

Í júlí 2021 fékk sveitarfélagið styrk frá Umhverfis- og auðlyndaráðuneytinu í verkefnið Nytjasmiðja Hornafjarðar, hluti af því er að greina úrgangsstrauma í sveitarfélaginu. Þar með talið þróun úrgangsmála, m.t.t.  magns endurvinnslu og urðunar sorps. Greiningarvinnan er langt komin og benda fyrstu niðurstöður til þess að bæta þurfi ferla við skráningu og móttöku sorps frá fyrirtækjum og stofnunum. 

Ný löggjöf tekur gildi

Þann 1. janúar 2023 taka gildi ný lög til eflingar hringrásarhagkerfisins sem miða að því að gera enn betur í endurnotkun, endurvinnslu og að draga úr urðun sorps. Greiningin sem unnið er að og þær úrbætur sem koma í kjölfarið munu auðvelda sveitarfélaginu að aðlagast þeim breytingum sem innleiðing langanna kallar á. Áherslan er á að „þeir borga sem menga“ því felst aukinn hvati í því að draga úr neyslu, endurvinna og endurnýta sem mest.

Samband íslenskra sveitarfélaga styður þétt við sveitarfélögin í landinu við undirbúning innleiðingar laganna og geta áhugasamir kynnt sér málið betur á síðu Sambandsins um verkefnið https://www.samband.is/verkefnin/umhverfis-og-urgangsmal/innleiding-hringrasarhagkerfis/

Verkefnið framundan er okkar allra, vinnum saman af framsækni með virðingu fyrir umhverfinu og samfélaginu sem við búum í.

Ásgerður K. Gylfadóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs.