Ný líkamsræktaraðstaða og framkvæmdir við Hofgarð

1079

Líkamsrækt

Hönnunarvinna á nýrri líkamsræktarstöð hér á Höfn er langt á veg komin og var kynnt  hagsmunaaðilum á dögunum og hafði áður fengið kynningu í bæjarráði. Ef allt gengur að óskum gætu framkvæmdir við bygginguna hafist á vordögum og er góð von til þess. Eins og flestum er kunnugt verður líkamsræktarstöðin byggð áföst sundlauginni og verður á tveimur hæðum. Núverandi búningsklefar sundlaugarinnar koma til með að nýtast fyrir nýja líkamsræktarstöð en þó verða nýir útiklefar hluti byggingarinnar sem nýtast fyrir bæði sundlaug og líkamsrækt. Í byggingunni er gert ráð fyrir rýmum fyrir tengda starfsemi sem hægt verður að leigja út en það eru rými fyrir t.d. nuddara, sjúkraþjálfara, snyrtifræðinga o.f.frv. Auk þessa gera teikningar ráð fyrir bættri aðstöðu fyrir hreyfihamlaða og kynsegin fólk. Með tilkomu nýrrar líkamsræktarstöðvar kemur sveitarfélagið m.a. til með að losa um gjöld vegna leigu á núverandi húsnæði og verður byggingin þannig um leið virðisaukandi fyrir sveitarfélagið.

Í núverandi húsnæði líkamsræktarstöðvar við Álaugarveg 7 nýtast u.þ.b. 200 m² fyrir líkamsræktartæki og hópatíma. Samskonar rými í nýrri byggingu verður rúmlega 400 m² auk þess sem að gangar og stigahol geta nýst fyrir ýmsa líkamsrækt. Einnig koma stærri rými í nýrri líkamsræktarstöð til með að nýtast mun betur þar sem t.d. tækjasalurinn í núverandi líkamsræktarstöð þykir nýtast illa vegna lögunar hans. Samtals verður nýbyggingin um 670 m². Þær skoðanir hafa komið fram að byggingin sé ekki nægjanlega rúmgóð og sjálfsagt eru mismunandi skoðanir á því. Það verður ekki svo að allir þeir sem stunda líkamsrækt geti stundað hana á sama tíma í húsinu og það þarf að skipuleggja hópatíma og aðra skipulagða starfsemi í byggingunni vel til að nýta hana sem best. En staðreyndin er hins vegar sú að verið er að rúmlega tvöfalda það rými sem nýtist fyrir líkamsræktartæki og hópatíma ýmis konar. Og vert er einnig að taka það fram hér að verið er að vinna nýtt skipulag fyrir miðbæjarsvæðið sem mun gera ráð fyrir mögulegri stækkun á líkamsræktarstöðinni í framtíðinni. Nýtt húsnæði líkamsræktarstöðvar ætti því að vera mikil bylting fyrir notendur hvað húsakostinn varðar og vonandi heldur starfsemin áfram að blómstra í nýjum húsakynnum, hvernig svo sem henni verður háttað á nýjum stað.

Vert að geta þess að ný líkamsræktarstöð kemur til með að vera fyrsta umhverfisvottaða byggingin á Hornafirði, með svokallaða BREEM vottun, sem kemur m.a. fram í efnisvali, lýsingu, hljóðeinangrun og loftræsingu.

Að þessu öllu sögðu held ég að við getum horft með tilhlökkun fram vegin hvað varðar húsakost líkamsræktar í sveitarfélaginu og það fer að fækka afsökunum sem undirritaður hefur til þess að mæta ekki ekki ræktina!

Hofgarður

Framkvæmdir í Hofgarði voru boðnar út á dögunum. Skemmst er frá því að segja að bæjarráð samþykkti eina tilboðið sem barst í verkið sem hljóðaði upp á 58.515.748 kr. frá Þingvað ehf. og var tilboðið u.þ.b. 7% yfir kostnaðaráætlun. Og það er því mikil ánægja að segja frá því að framkvæmdir hefjast á næstu dögum og á þeim að vera lokið 8. ágúst n.k. Þessar framkvæmdir koma til með að stækka og bæta húsnæði og aðstöðu leikskólans Lambhaga til muna bæði fyrir börn og starfmenn hans. Auk þess verður, eftir framkvæmdirnar, innangengt á milli leikskólans og grunnskólans sem eru samreknir. Við það verður meiri og betri samnýting á starfsfólki skólanna. Á meðan á framkvæmdum stendur færist skólastarf í leik- og grunnskólanum í Hofgarði yfir í Efribæ á Fagurhólsmýri. Einnig koma framkvæmdirnar til með að bæta salernisaðstöðu grunnskólahluta hússins til muna en núverandi salerni eru upprunaleg eða frá árinu 1986 og því komin tími á endurbætur á þeim.

Björgvin Óskar Sigurjónsson, bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og varaformaður fræðslu- og tómstundanefndar.