Húsnæðismál

512

Sveitarfélagið Hornafjörður er frábær staður að búa á. Hér höfum við aðgang að námi á öllum skólastigum, heilbrigðis- og félagsþjónusta er góð og aðgengileg. Aðstaða til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar, verslun og þjónusta til staðar og öflugt menningarlíf a.m.k. þegar heimsfaraldur er ekki að herja á. Atvinna hefur verið nokkuð trygg og þrátt fyrir atvinnuleysi í dag, sem án efa tengist covid-19 heimsfaraldri er talað um skort á starfsfólki í ferðaþjónustuna sem er að fara á fulla ferð eftir erfiða tíma vegna covid.

Mikil uppbygging hefur verið í gangi síðustu ár í sveitarfélaginu. Það á bæði við í þéttbýlinu á Höfn og í dreifbýlinu, lóðaskortur hefur verið að myndast og er nú orðinn hamlandi þáttur. 

Í dag er íbúafjöldinn í sveitarfélaginu 2.444 þar af 1.788 á Höfn, Nes 242, Lón 25, Mýrar 61, Suðursveit 103 og Öræfi 225.

Húsnæðisáætlun

Bæjarstjórn Hornafjarðar afgreiddi í gær húsnæðisáætlun sveitarfélagsins en þar er dregin fram mynd húsnæðismála, innviðir sveitarfélagsins greindir og horft til framtíðar. En megin markmið með gerð húsnæðisáætlanna er að stuðla að auknu húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu. Húsnæðisáætlunina má nálgast undir fundargerð bæjarstjórnar https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir/DisplayMeeting.aspx?id=XAblCsRrIkS6mOk7zqdmUA1&text= en hún verður einnig aðgengileg með öðrum húsnæðisáætlunum á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem hefur eftirlit með með uppfærlsu þeirra á landsvísu.

Höfn

Unnið hefur verið að þéttingu byggðar á Höfn en skipulagið „þétting byggðar – innbær „ mun fara í íbúakosningu vonandi í mars n.k. Einnig er í vinnslu deildiskipulag „Leirusvæði 2“ þar sem byggt verður á uppfyllingunni austan við Álaleiru og Hagaleiru. 

Unnið er að undirbúningi fleiri íbúðasvæða m.a. á grunni íbúafundar um málið sem haldinn var sl. haust. Margar góðar hugmyndir komu fram bæði um ný svæði og frekari þéttingu byggðar. 

Hrolllaugsstaðir

Nú styttist í að fimm íbúðir verði klárar í gamla skólahúsnæðinu á Hrollaugsstöðum en þær fara allar í útleigu. Á bæjarstjórnarfundi í gær 10.febrúar var bæði aðal- og deiliskipulag við Hrollaugsstaði afgreitt til Skipulagsstofnunar en þar er fyrirhuguð frekari íbúabyggð.

Öræfi

Mikil uppbygging er við Borgartún, ofan við Hofgarð og styttist í að það svæði verði fullbyggt miða við núverandi skipulag. En fólksfjölgun hefur verið mikil í Öræfum síðustu ár, enda má segja að Öræfin séu vagga ferðaþjónustunnar í sveitarfélaginu og stutt í einstakar náttúruperlur.

Það er ljóst að mikið er framundan í skipulagsmálum tengdum íbúabyggð en með flutningi Skipulagsstofunar til hins nýja innviðaráðuneytis sem fer nú bæði með húsnæðis- og skipulagsmál stendur til að huga að einföldun og skilvirkari afgreiðslu skipulagsmála sem mun vonandi koma sveitarfélögum vel sem eru í sambærilegri stöðu og Sveitarfélagið Hornafjörður.

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs.