Kosningavor

517

Nú líður að lokum þessa kjörtímabils með kosningum þann 14. maí n.k. og er undirbúningur hafinn eða að hefjast hjá flokkum og framboðum um allt land. 

Það er að mörgu að hyggja á þessum tímapunkti en fyrst og fremst að íbúar íhugi og taki afstöðu til þess að taka þátt og bjóða sig fram til starfa.

Það er kostur fyrir hvert samfélag að hafa úr fjölbreyttum hópi framboða að velja en oft heyrir maður að kjósandinn vilji frekar velja einstaklinga en framboð/lista. Eins og staðan er í dag er ekki persónukjör nema þar sem engir listar eru bornir fram en þar eru allir íbúar á kjörskrá nema í sérstökum tilfellum.

Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa

Í stefnumótandi áætlun um málefni sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi 2021 og aðgerðaráætlun til ársins 2023 (https://www.stjornarradid.is/verkefni/sveitarstjornir-og-byggdamal/sveitarstjornarmal/stefna-i-malefnum-sveitarfelaga-2019-2033/ ) eru settar fram 11 aðgerðir með það að markmiði að styrkja sveitarstjórnarstigið. Aðgerð átta snýr að starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa og hefur starfshópur hafið störf þar sem skoðað er m.a. álag/kjör/aðstæður kjörinna fulltrúa, hlutverkagreining, samskipti í sveitarstjórnum og utanaðkomansi áreiti. Markmið hópsins er að kynna tillögur sínar núna í haust.

Laun kjörinna fulltrúa

Laun kjörinna fulltrúa fyrir sín störf í þágu samfélagsins eru mjög mismunandi yfir landið og eftir stærð sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur kannað kjörin með reglubundnum hætti og getfið út leiðbeiningar þar sem sveitarstjórnir ákveða ennþá sín kjör sjálfar. Reynist það sveitarstjórnum því oft erfitt að gera breytingar þar sem launahækkanir eigin launa eru ekki góðar eða líklegar til vinsælda. Hér í okkar sveitarfélagi hefur sá háttur verið á að laun hafa verið rædd við gerð fjárhagsáætlunar í lok kjörtímabils. Breytingar ef einhverjar hafa verið látnar taka gildi við upphaf nýs kjörtímabils þannig að bæjarfulltúar eru ekki að ákveða eigin laun heldur nýrrar bæjarstjórnar.

Vinnutími

Þau tólf ár sem undirrituð hefur setið í bæjarstjón hafa verið tekin skref í að færa fundi bæjarráðs, sem er vikulega á dagvinnutíma í stað þess að vera kl.16 á daginn. Mánaðarlegir bæjarstjórnar- og nefndafundir eru eftir dagvinnutíma en nefndum er frjálst að ákveða annan tíma dags henti það nefndarfólki. Fundartíminn þarf að vera skipulagður þannig að allir geti átt kost á að mæta og sinna sínu starfi sem kjörinn fulltrúi. 

Hins vegar gleymist oft í umræðunni að starf kjörins fulltrúa jafnt í bæjarstjórn sem í nefndum er ekki aðeins bunið við fundarsetu heldur þarf að undirbúa sig fyrir fundi, fylgja eftir málum og oft á tíðum eru ýmsir fundir/ráðstefnur/málþing á milli fastra funda sem þarf að undirbúa sig fyrir og mæta á.

Álag og áreiti

Síðustu ár hefur umræðan um álag og áreiti á kjörna fulltrúa verið meira í umræðunni. Flest ef ekki öll þekkjum við dæmi úr eigin lífi eða úr fjölmiðlaumfjöllun þar sem þessi þáttur er dreginn fram og áhrif hans á líf og sjórnmálaþátttöku kjörinna fulltrúa og á fjölskyldur þeirra. Það á jafnt við hér í Sveitarfélaginu Hornafirði og á öðrum stöðum í heiminum því miður. Þetta er alþjóðlegt viðfangsefni sem fælir fólk frá þátttöku og á við bæði í litlum sveitarfélögum og stórborgum. Þessi þáttur er einn af þeim sem áhersla er á í umfjöllun um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa hér á landi. Hvernig við upprætum áreiti og jafnvel ofbeldi er samfélagsverkefni þar sem hver og einn þarf að leggja sitt lóð á vogarskálarnar. 

Þakklæti

Nú er undirrituð að ljúka sínu þriðja kjörtímabili. Á þessum tíma ég hef fengið tækifæri til að sinna fjölbreyttum verkefnum með stórum hópi fólks í sveitarfélaginu, á landsvísu og á alþjóðavettvangi. Ég er þakklát fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið og það fjölmarga fólk sem hefur staðið við bakið á mér og stutt mig í mínum verkefnum. 

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar hafa á þessum tólf árum orðið stór þáttur í því að við kjörninr fulltrúar komum okkar sjónarmiðum á framfæri og orðið vettvangur íbúa til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þó er það nú þannig að þó við séum öll (flest) þarna inni þá heyrum við ekki alltaf í hvort öðru. Stundum á sér stað samtal en samfélagsmiðlar eru ekki formlegur vettvangur þess og sem betur fer tekur fólk enn upp símann, sendir tölvupóst eða hittist til að ræða málin, bæði gagnrýna og hrósa.

Framhaldið

Undanfarið hafa fulltrúar í bæjar-, borgar- og sveitarstjórna hver af öðrum verið að tilkynna hvort þau hyggist gefa kost á sér til áframhaldandi vinnu og fjölmargir liggja enn undir feldi að vega og meta hvað skal gera. Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég gef kost á mér til áframhaldandi vinnu á þessum vettvangi, er undir feldi ennþá.

En ég hvet alla til að íhuga það að gefa kost á sér til starfa fyrir samfélagið. Við þurfum á fjölbreyttum hópi að halda, af öllum kynjum, aldri og með ólíkan bakgrunn. En það hefst ekki nema að fólk standi upp frá tölvunni (áður elhúsborðinu) og gefi kost á sér. 

Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og oddviti framboðs Framsóknar og stuðningsmanna þeirra 2018-2022.