Bæði ljúft og skylt

746

Gleðilegt ár og þakka ykkur fyrir gamla árið sem var keimlíkt árinu á undan hvað varðar veiru skrattann. Það komu alltaf aðrar brekkur loksins þegar maður hélt að farið væri að sjá fyrir endann á þeirri sem maður var að klífa. En svona er lífið, hæðir og lægðir og svo ég verði nú enn dýpri, þá birta öll él um síðir.

En ekki átti þessi pistil minn að fjalla um þær vangaveltur hvort og hvenær við losnuðum við covid. Nei, ég ætla að fjalla um nokkur atriði sem ég sá á ferð minni um fésbókina. Mér verður það stundum á þegar stímin eru löng að þvælast þar um og lesa alla þá uppbyggilegu umræðu sem þar þrífst. Sem er oft á tíðum gangrýnislaus og án þess að fólk geri minnstu tilraun til að kynna sér málin þó svo að ein leit á Google myndi upplýsa viðkomandi um staðreyndir málsins.

Sveitasjóður

Tekjur og gjöld: Eins og allir vita þá er mikilvægt að hafa þessa tvo liði í lagi þegar menn reka heimili, fyrirtæki eða sveitarsjóð. Ef misræmi verður mikið þá er ekki annað að gera en að taka á vandanum. Auðvitað þurfa ekki öll ár að vera eins og auðvitað er hlutverk heimila, fyrirtækja og sveitasjóðs mismunandi. Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið rekið með miklum ágætum undafarin ár. Það hefur skilað ríflegum hagnaði til fjárfestinga og jafnhliða haldið uppi háu þjónustustigi við íbúan.

Auðvitað geta menn svo deilt um hvort það hefði átt að setja meira hér eða þar. Þegar launakostnaður sveitafélaga í landinu hefur aukist um 16% og við Hornfirðingar höfum ekki farið varhlut af því. Ásamt því að tekjur hafa ekki aukist að verðgildi og ekki eins og menn höfðu væntingar um fyrir nokkrum misserum síðan er ekki annað að gera en að bretta upp ermar, reyna að auka tekjur, draga úr framkvæmdum eða skerða þjónustu. Bæjarstjórn hefur ekki viljað skerða þjónustu og kemur tvennt til. Annars vegar hefði það þýtt einhverjar uppsagnir og þá aukið atvinnuleysi á svæðinu og svo hins vegar þá var það samdóma álit að við yrðum að standa við bakið á okkar stofnunum í því álagi sem fylgir covid.

Það varð því úr að fresta framkvæmdum svo sem á Sindrabæ, fara yfir tekjuhliðina og leitast við að láta þá borga sem nota þjónustu sveitarfélagsins, leiðrétta þætti sem hafa verið gerðar athugasemdir við en vera þó hófleg í gjaldtöku og passa eftir mætti að vera samanburðarhæf við önnur sveitafélög. En yfir þetta er ágætlega farið í svari sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/gjaldskrarbreytingar-hja-sveitarfelaginu-hornafirdi við forsíðufrétt sem birtist á síðu verkalýðfélagsins Afls.

Án þess að vera einhver „bezzervizzer“ þá sjá allir sem vilja sjá að sveitarfélagið varð að bregðast við þeim aukna launakostnaði sem það stendur frami fyrir og hefði verið mjög óábyrgt að sitja með hendur í skauti, láta bæjarstjórnarkosningar líða og láta næstu bæjarstjórn sitja upp með Svarta Pétur. Sveitasjóður verður að skila einhverjum afgangi til þess að það þurfi ekki að taka lán fyrir öllum framkvæmdum, hvað þá rekstri. Það er ekki boðlegt og bara ávísun á vandræði í framtíðinni og auknar álögur á komandi kynslóðir.

Vinsældir 

 Að vera í bæjarstjórn er ekki vinsælda kosning, það er þjónusta sem bæjarstjórnarfólk tekur að sér fyrir samfélagið og get ég fullyrt að allir eru í þessu af heilindum, gera þetta eftir bestu samvisku og vilja láta gott af sér leiða. Sjálfsagt er fólk þarna úti sem er betur til þess fallið en þeir sem standa í þessu streði þessi misserin og sjálfsagt er hægt að gera betur og sjálfsagt er líka hægt að gera verr en hvað um það, allir reyna að gera sitt besta.

Aðeins um söfn, íþróttamannvirki og aðrar framkvæmdir

Ég hef aðeins séð vangaveltu um hitt og þetta á þeim merka miðli sem nefndur var hér fyrr í greininni. Ég ætla ekki að fara með sama vælið og er hér fyrir ofan en þetta er allt spurning um forgangsröðum, þörf, fjármagn og skynsemi. Sveitafélagið Hornafjörður hefur lágt skuldahlutfall og gæti gert þetta allt og meira til ef menn eru tilbúnir í auknar lántökur. Þó með þeim fyrirvara að það fengjust iðnaðarmenn til að framkvæma verkefnin. Mér sýnist okkar fólk hafa nóg fyrir stafni svo kannski er rétt að dreifa verkefnunum.

Að lokum 

Það eru sveitarstjórnarkosningar í vor og ég er ekki í vafa um að þau framboð sem bjóða fram verða með gott fólk á listum og hvet ég þá Hornfirðinga sem áhuga hafa á framgangi okkar sveitarfélags að setja sig í samband við þær fylkingar sem ætla að bjóða fram. Bjóða sig á lista eða í nefndir eftir kosningar. Svo veit ég að allir listar eru boðnir og búnir að taka við hugmyndum inn í málefnavinnuna, við getum gert gott betra.

Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar.