Skipulagsmál hafa verið fyrirferðamikil á því kjörtímabili sem rennur sitt skeið á enda nú á vormánuðum og hafa þau tekið talsverðan tíma. Bæði þau sem sveitarfélagið hefur gert og þau sem einstaklingar hafa látið gera fyrir sig. Öll verða þau að koma fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd til staðfestingar og auðvitað verða íbúar að hafa tök á að kynna sér þau á skipulagstímanum. Sum hafa tekið alltof langan tíma og er ekki við neinn einn að sakast, bæði hafa verið mannabreytingar á þeim verkfræðistofum sem hafa verið að vinna fyrir okkur. Menn hafa líka verið að kenna Covid um og svo síðast en ekki síst þá eru takmörk fyrir því hvað stjórnsýslan getur afkastað miklu svo vel sé, því ef við vöndum okkur ekki þá hefur þetta tilhneigingu til að fara í skrúfuna.
Þétting byggðar
Eins og lesendum ætti að vera kunnugt þá hefur það skipulag verið lengi í fæðingu og ferli til staðfestingar. Haldnir voru nokkrir fundir með íbúum og brugðist var við ýmsum ábendingum sem fram komu þó mörgum finnst ekki nóg að gert. Skipulagið er tilbúið og hægt verður að hefja úthlutun samkvæmt því um leið og íbúakosning hefur farið fram, svo framalega að íbúar samþykki skipulagið. Í þessu skipulagi eru sjö lóðir þar af ein raðhúsa lóð með þremur íbúðum. ´Ég tel að þetta sé gott skipulag, bæði hefur verið hugsað fyrir nýtingu innviða og lands án þess ganga of mikið á græn svæði og útivistarmöguleika íbúa.
Ég hvet íbúa til að taka þátt í kosningunni þegar þar að kemur og umfram allt að kynna sér málið með opnum hug, velta fyrir sér hvernig samfélag og byggðarmynstur menn sjá fyrir sér í ókomni framtíð.
Hrollaugsstaðir og Leiran
Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsnefndar fjölluðum við meðal annars um deiliskipulögin á Hrollaugsstöðum og Leirunni. Þau skipulög eru langt kominn og hef ég væntingar um að þau verði kláruð fljótlega eftir áramót. Í skipulaginu á Hrollaugsstöðum er gert ráð fyrir fimm íbúða raðhúsi og einu parhúsi í fyrsta áfanga síðan í framhaldinu væri hægt að bæta við tveimur parhúsum og einu raðhúsi. Á Leirunni er gert ráð fyrir blandaðri byggð, en auðvitað getur þetta breyst í skipulagsferlinu m.a. með athugasemdum frá íbúum.
Miðbæjarsvæði
Þetta skipulag er styttra á veg komið, því miður og lítið um það að segja. Hér erum við að reyna að hugsa til næstu áratuga og sjá fyrir okkur bygginga þarfir tengdar grunnskóla og íþróttum. Í vinnu við þetta skipulag er verið að reyna að hafa pólitíska samstöðu svo niðurstaðan geti verið leiðarvísir næstu bæjarstjórna inní framtíðina.
Hafnarsvæðið
Umhverfis- og skipulagsnefnd og hafnarstjórn eru nýbúnar að samþykkja skipulagslýsinguna fyrir hafnarsvæðið svo sú vinna er farin á fullt og verður vonandi langt komin á vormánuðum. Hér er aðallega verið að laga agnúa sem voru á fyrra skipulagi og skýra starfsemi hafnarinnar betur.
Heppan
Í sumar hófum við vinnu við að endurskoða skipulagið á Heppunni. Bæði er það tilkomið til að bregðast við bílastæða skorti á hafnarsvæðinu og svo hitt að atvinnu- og menningarmálanefnd hefur skilgreint hlutverk Miklagarðs og Verðanda (rústana) og er kominn með metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir svæðið. Einnig hafa nýir eigendur að sláturhúsinu óskað efir því að koma inní þetta skipulag því fyrirhuguð starfsemi þeirra fellur vel að þeirri starfsemi sem fyrir er á svæðinu. Gaman verður að fylgjast með þeirri uppbyggingu á næstu misserum.
Leiðarhöfði
Leiðarhöfða svæðið er komið í samkeppni og það verður spennandi að sjá þær hugmyndir sem eiga eftir að koma fram hjá þeim hönnuðum sem taka þátt. Svæðið er dýrmætt og á eftir að verða með vinsælustu útsýnissvæðum á landinu í framtíðinni
Hér hef ég aðeins stiklað á stóru í skipulagsmálum og ekki talið upp þau fjölmörgu skipulög sem íbúarnir eru með á sinni könnu, þau hafa verið fjölmörg þessi síðustu ár. Flest hafa þau verið metnaðarfull og góð.
Víkin milli Leiðarhöfða og Afkastahóls (við Ránarslóð)
Eins og ykkur er kunnugt um hefur verið nafnasamkeppni um þessa vík. Þegar þetta er skrifað hef ég ekki hugmynd um hvað nöfn hafa komið fram. Ég hef verið að grafast fyrir um kennileiti á svæðinu eða nafn sem hægt væri að nota og er sú vinna enn í gangi. Þau nöfn sem mér hefur dottið í hug eru þessi:
- Ytri Höfðavík, samkvæmt kortum er Höfðavík innan við Leiðarhöfðann.
- Mönguvík, tenging við Möngu hellir sem er í Afkastahól.
Þessari leit er ekki lokið og vonandi finnum við gott nafn.
Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.