Um áramótin næstu verða innleidd ný lög um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason hefur lagt áherslu á málefni barna í embætti sínu og fór í margþætta vinnu við endurskoðun á félagslegri umgjörð barna og fjölskyldna þeirra með snemmtækan stuðning, samþætta þjónustu og samstarf þvert á stofnanir að leiðarljósi.
Afrakstur þeirrar vinnu voru ný lög sem taka gildi frá og með næstu áramótum. Í raun eru það þrenn ný lög, lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lög um Barna- og fjölskyldustofu og lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Breytingarnar sem felast í lögunum er ætlað að stuðla að aukinni velferð og farsæld barna í barnvænu, heilsueflandi og valdeflandi samfélagi. Börn og foreldrar sem á þurfa að halda eigi að hafa aðgang að samþættri þjónustu við hæfi.
Innleiðing
Í Sveitarfélaginu Hornafirði er hafin vinna við innleiðingu laganna. Sveitarfélagið hefur veitt mjög góða þjónustu þegar kemur að málum sem þessum og að mörgu leiti með því formi sem kynnt er í lögunum. Þó þarf að fara fram skilgreining á þeirri þjónustu sem veitt er og á hvaða stigi hún er veitt, þ.e. fyrsta, öðru eða þriðja stigi. Fyrsta stiginu tilheyrir grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum, á örðu stigi þjónustu tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur. Á þriðja stigi þjónustu tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns. Hafin er vinna við að skilgreina umrædd þjónustustig og fer sú vinna fram á velferðarsviði og einnig í skólunum.
Fjármögnun
Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytið vinna saman að því að fjármagna breytingarnar en tryggðar hafa verið 1.100 m.kr. á ári næstu þrjú árin til innleiðingar laganna. Rennur sú fjárhæð til sveitarfélaganna með skiptireglu sem verið er að skilgreina.
Barnvænt sveitarfélag
Það er ljóst að mikil vinna er fyrir höndum en það er gríðarlega spennandi verkefni. Við viljum jú búa börnum gott umhverfi til búsetu og gott skólakerfi. Sveitarfélagið er aðili að verkefninu barnvæn sveitarfélög sem hefur það að markmiði að innleiða barnasáttmála sameinuðu þjóðanna ásamt því að vera heilsueflandi sveitarfélag en það styður sannarleg við lögin um farsæld barna.
Barnaþing
Í vikunni voru haldin tvö barnaþing þar sem börnum í sveitarfélaginu á grunn- og framhaldsskólaaldri. Þar fengu börn tækifæri til að hafa áhrif á starfsemi sveitarfélagsins og rödd barna fær stærra hlutverk með þessum hætti. Einnig er nýtt ungmennaráð tekið til starfa eftir kosningar í skólunum í haust, þau eiga áheyrnarfulltrúa í flestum nefndum sveitarfélagins og hafa þar tækifæri til að hafa áhrif.
Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri