Komið haust
Það passar til að þessu þurra sumri lauk þegar bændur fóru að velta fyrir sér smalamennsku, það óx í ám og rétt sást upp í miðjar hlíðar. En það þýðir ekki að slá slöku við og bændur verða að sækja sitt lifibrauð þó afraksturinn sé allt of lítill.
Í haust verður ekki slátrað á Höfn og er það miður. Sennilega hefur það ekki gerst áður frá því Höfn byggðist og er það von mín að þær dugnaðarkonur sem íhugað hafa að setja á stofn sláturhús sjái hag sinn í því og láti það verða að veruleika. Ég tel að matvælavinnsla með hráefni úr héraði eigi framtíð fyrir sér. Kannski það verði langhlaup að koma henni á koppinn en með vitundarvakningu í umhverfismálum þá mun þessi þankagangur fá sífellt meira vægi.
Aðeins um sjóinn
Eins og flestum er kunnugt þá er humarvertíðin ekki svipur hjá sjón þessi misserin og er orðið einmannalegt á Eyjahorninni á þessum hefðbundnu vertíðarmánuðum allavega eru baujurnar þar og við Hálsana ekki eins og frumskógur yfir að líta líkt og venja var. Siggi Óla hefur ekki þurft að bítast við neinn um bestu stæðin. Tímarnir breytast og við neytendurnir með. Við viljum ferskan fisk alltaf þegar okkur dettur í hug og sjávarútvegsfyrirtækin bregðast við með því að vera með jafnt framboð af gæðavöru til neytenda úti í hinum stóra heimi.
Við fengum smjörþefinn af loðnuvertíð síðasta vetur og útlit er fyrir mjög stóra loðnuvertíð í vetur. Svo stóra að allt þarf að ganga upp svo náist að veiða upp í heimildir, verkefnið er ærið. Makrílveiðin var snúin og þurftum við að sækja allan okkar afla austur í Smugu. Túrarnir voru langir og oft á tíðum leiðinlegir. Undanfarinn mánuð hafa stóru bátarnir verið að veiða norsk-íslensku síldina. Hún hefur haldið til í Héraðsflóanum þar sem veiðar hafa gengið vel og eru hornfirðingar búnir með sinn kvóta af norsk-íslensku síldinni. Framundan eru veiðar á suðurlands-síldinni en síðustu ár hefur þurft að sækja megnið af henni í Faxadýpi.
Bæjarmálin
Þegar þetta er skrifað er ég staddur á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í Reykjavík. Það verður að segjast eins og er að mörg sveitarfélög eru löskuð eftir heimsfaraldurinn Launahækkanir í kjölfar nýrra kjarasamninga og stytting vinnuvikunnar hafa aukið mjög kostnað sveitarfélaga á tímum tekjusamdráttar.
Þessar vikurnar eru sveitarstjórnarmenn um land allt að sjóða saman fjárhags- og framkvæmdaáætlanir fyrir árið 2022. Verkefnið byggist á því að leita að auknum tekjum samhliða því að draga úr kostnaði. Þetta er jú verkefni sveitarstjórnarmanna eins og Alþingismanna. Við erum vörslumenn almannafjár og ber skylda til að sýna ráðdeild og hagsýni við ákvarðannatöku.
Ekki er það þó ætlunin að vera með eitthvað svartsýnisraus því framtíðin er björt. Við sjáum vonandi fyrir endann á heimsfaraldrinum og ferðamenn streyma til landsins. Sá straumur á bara eftir að vaxa og verður vonandi til þess að afurðaverð til bænda hækkar. Það er stór loðnuvertíð í kortunum sem skilar sér inn í allt samfélagið. Eftirspurn eftir lóðum virðist engann enda ætla að taka, sem betur fer svo iðnaðarmenn verði áfram vinsælasta stúlkan á ballinu.
Það er ekkert annað í kortunum en að komandi misseri verði góð fyrir okkur Austur-Skaftfellinga og sá mannauður sem við búum yfir í sýslunni flýtir fyrir því að komumst upp úr þessum öldudal. Eins og sést er okkar litla hagkerfi á góðum snúningi og við Framsóknarmenn ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að svo verði áfram.
Ásgrímur Ingólfsson, forseti bæjarstjórnar