Á ferðalagi um Suðurland hafa margar fjölskyldur stytt sér stundir í akstrinum með því að telja einbreiðar brýr á þjóðvegi eitt. Reyndar endar sá leikur oftar en ekki með því að allir þátttakendur tapa tölunni og skildi þá engan undra!
Þeim sem hafa þessa dægrastyttingu á ferðalögum gæti þó fækkað í náinni framtíð í ljósi þess að markvisst hefur verið unnið í því að undanförnu að fækka einbreiðum brúm. Sjaldan eða aldrei hefur verið ráðist í jafn umfangsmiklar lagfæringar og uppbyggingu á vegakerfinu okkar eins og undanfarin ár.
Það er afskaplega ánægjulegt að nú séu framkvæmdir við nýjan veg og nýja brú yfir Hornafjarðarfljót að hefjast. Nýr vegur gerir allt í senn, hann styttir leiðina til Hornafjarðar um 12 km., leysir af hólmi þrjár einbreiðar brýr á svæðinu og eykur til muna öryggi vegfarenda og á leiðinni um Hornafjörð. Um er að ræða mikið framfaraskref fyrir íbúa á svæðinu alla þá sem ferðast þar um.
En það er önnur brú sem er ekki síður mikilvæg fyrir íbúa á Hornafirði – nefnilega loftbrúin. Með hinni skosku leið í flugsamgöngum hefur aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu og afþreyingu í höfuðborginni stóraukist. Hvort sem við viljum bjóða makanum í leikhús eða bíó eða einfaldlega að rækta tengsl við ættingja og vini, er íbúum landsbyggðarinnar tryggður um helmingsafsláttur af flugfargjaldi. Með því er stigið skref til þess að gera flugsamgöngur að hluta almenningssamgangna.
Þetta er byggðastefna í verki! Byggðastefna sem samgönguráðherra hefur fest í sessi og felur í sér að vinna út frá þörfum og hagsmunum íbúa landsbyggðarinnar. Brýrnar til Hornafjarðar eru stór skref til að tryggja blómlega byggð á Hornafirði og í nærsveitum.
Margt hefur áunnist undanfarin fjögur ár en til þess að vinna stóra sigra þarf kjark til þess að taka stórar ákvarðanir.
Því hlýtur að vera eðlilegt að spyrja sig: Er ekki bara best að kjósa Framsókn?
Njáll Ragnarsson,
Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Vestmannaeyja og skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.