Er Sjónarhóll of lítill?

618

Þessari spurningu hefur verið varpað fram í umræðu um leikskólamál að undanförnu. Atvinnuþátttaka foreldra og leikskóla/dagvistarrými haldast langoftast í hendur og sú sjálfsagða þörf eldri leikskólabarna að fá pláss komi til búferlaflutninga á milli sveitarfélaga. Öll börn eins árs og eldri eiga kost á leikskóladvöl þegar pláss eru laus. Sjá reglur um starfsemi leikskóla.

En komast öll börn að?

Börn eru innrituð í aldursröð, þau elstu fyrst og svo koll af kolli. Varðandi yngstu börnin þá hefur fæðingarorlof verið lengt í 12 mánuði undir forystu Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra. Þar hefur verið komið til móts við kröfur samfélagsins um aukinn tíma beggja foreldra með nýfæddu barni og með því leitast við að brúa betur það bil sem oft skapast milli fæðingarorlofs og dagvistar. Til viðbótar fæðingarorlofinu eiga sumir hverjir kost á því að lengja tímann með töku orlofs í kjölfarið.

Það er stefna sveitarfélagsins að þetta ferli gangi allt vel fyrir sig og að börn á leikskólaaldri sem flytja í sveitarfélagið fái dagvistun sem allra fyrst.

Dagforeldrar

Dagforeldrar hafa gegnt mjög mikilvægu hlutverki með dagvistunarúrræði fyrir bæði yngsta aldurshópinn og eldri börn til skemmri tíma. Nú er svo komið að aðeins eitt dagforeldri er að störfum í sveitarfélaginu. Sú staða hefur komið upp áður en þá hafa aðrir bæst í hópinn tímabundið.

Nú hefur sveitarfélagið auglýst eftir dagforeldri og er sem fyrr tilbúið til að aðstoða áhugasama við að hefja störf samkvæmt reglum þar um.

Hvað með Sjónarhól?

Yfirskrift þessa pistils er hvort Sjónarhóll sé of lítill. Það er allavega ljóst að ekki er hægt að bæta við börnum jafnt og þétt yfir skólaárið um leið og þau verða eins árs. Því er brýn þörf fyrir fleiri dagforeldra. Árlega er farið yfir fjölda einstaklinga í árgöngum og þróunina til þess að vakta hver þörfin er og verður. Þegar Sjónarhóll var tekinn í notkun var fjöldi deilda sá sami og var á Lönguhólum og Krakkakoti til samans. Markmiðið var eftir því sem ég kemst næst að skólinn rúmaði fleiri börn en nú eru á leikskólanum og þá starfsmenn sem þyrfti til að sinna kennslu og þörfum nemenda.

Hvað svo?

Fræðslu- og tómstundanefnd í samvinnu við sviðsstjóra fræðslu- og frístundasviðs og leiksólastjórnendur, vinna að því að skoða hvernig við mætum auknum fjölda sem þarf á leikskóladvöl að halda. Greina rýmið enn betur og koma með ábendingar, tillögur að framtíðarsýn og aðgerðum í málaflokknum ef ástæða þykir til.

Á meðan á þeirri vinnu stendur reyna allir eftir fremsta megni að eiga gott samtal og samstarf við foreldra og forráðamenn barna á leikskólaaldri sem ekki komast að í skólanum. Foreldrar sem lenda í þeirri stöðu að barn kemst hvorki að hjá dagforeldri eða í leikskóla á rétt á foreldragreiðslum/heimgreiðslum samkvæmt reglum þar um.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, formaður bæjarráðs og Íris Heiður Jóhannsdóttir, formaður fræðslu- og tómstundanefndar.