Þessa dagana er sumarleyfum að ljúka og venjubundin verkefni taka við. Bæjarstjórn kom saman í gær eftir sumarleyfi og fundir bæjarráðs nú aftur orðnir vikulega. Vonandi hafa allir átt gott sumar og náð að eiga góðar stundir við sín hugðarefni eins mismunandi og þau geta verið hjá okkur öllum.
Síðasti pistill hér á síðunn fjallaði um að loksins væri komið að útboði á byggingu við hjúkrunarheimilið og langþráðar endurbætur. Þess má geta að útboðsfrestur hefur verið lengdur en opnun tilboða verður 7. september n.k.
Heilbrigðisþjónusta við aldraða er einmitt efst á baugi í dag þar sem Heilbrigðisþing 2021 fer fram í dag og er tileinkað þessum málaflokki. Þann 18. ágúst var einnig birt á vef heilbrigðisráðuneytisins aðgerðaráætlun um heilsueflingu aldraðra. Meðfylgjandi er hlekkur á síðuna fyrir þá sem vilja kynna sér málið frekar https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2021/08/18/Adgerdaaaetlun-um-heilsueflingu-aldradra-birt/
Þá var ánægjulegt að lesa viðtal við þríeykið sem nú býr saman í Mjallhvíti þar sem áður var dvalardeild í Fréttablaðinu í dag. En þar búa þrír eldri borgarar með stuðningi heimaþjónustu sveitarfélagsins. Þar kemur svo vel fram þörfin fyrir fjölbreytt úrræði og búsetu fyrir eldri borgara og hve mikilvægt er að sinna andanum og félagslegum þáttum. https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/210820.pdf?fbclid=IwAR3-SdU1jZKB7yXeRNtBn3bY0Y5BslupyBeern-r0XKTYEXXAC14-iVG_m4 Viðtalið er á bls. 10 í blaðinu.
Höldum áfram veginn og vinnum að því að gera betur á hverjum degi. Fögnum hverju ári sem bætist við lífið og stefnum að því að bæta lífsgæði og aðbúnað okkar elstu íbúa.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður öldungaráðs og bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar.