Stofnun fjölmenningarráðs í Sveitarfélaginu Hornafirði

813

Við búum í fjölmenningarsamfélagi. Í kringum 22% íbúa Sveitafélagsins Hornafjarðar er af erlendum uppruna og af 40 mismunandi þjóðernum. Þessar tölur staðfesta þá miklu þörf fyrir skýra stefnu og gott utanumhald í málefnum íbúa af erlendum uppruna.

Sveitafélagið hefur á undanförnum árum lagt markvisst aukna áherslu á málefni innflytjenda sem hefur verið í góðum höndum Hildar Ýrar Ómarsdóttur, verkefnastjóra fjölmenningarmála. Þar ber helst að nefna tungumálakaffi,  stefnumótun um túlkaþjónustu og menntun staðtúlka, samvinnuverkefni með Menningarmiðstöðinni og Rauða krossinum, bætt upplýsingaflæði til nýrra íbúa á mismunandi tungumálum og einstaklingsráðgjöf. 

Fjölmenningarráð

Nýlega samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar stofnun fjölmenningarráðs sem mun taka til starfa eftir sumarið. Hornafjörður er þriðja sveitafélagið á Íslandi til þess að stofna slíkt ráð. 

Megin hlutverk fjölmenningarráðs er að móta stefnu í fjölmenningarmálum sveitarfélagsins, koma málefnum innflytjenda í sveitarfélaginu á framfæri, skapa vettvang til samskipta og stuðla að fjölmenningarlegu samfélagi. Ráðið mun stuðla að hvers konar upplýsingagjöf og samstarfi sveitarfélagsins við íbúa af erlendum uppruna, vinna að stefnumótun og gera tillögur sem varðar verksvið þess. 

Fjölmenningarráð er skipað fimm einstaklingum, tveir kosnir af bæjarstjórn og þrír fulltrúar eru tilnefndir úr samfélaginu af verkefnastjóra fjölmenningarmála, þvert á atvinnulíf, fræðslu- og frístundamál og velferðarmál. Þeir íbúar sem eru tilnefndir skulu vera innflytjendur.

Dýrmætur mannauður

Það er því óhætt að segja að staða sveitarfélagsins í fjölmenningarmálum sé töluvert sterkari nú en áður og hafa t.a.m. önnur sveitarfélög leitað til okkar eftir hugmyndum og ráðlegginum er varða bætta þjónustu við íbúa af erlendum uppruna. Eins og áður hefur fram komið býr fólk frá 40 mismunandi löndum í sveitarfélaginu okkar. Þessir einstaklingar koma hingað með menntun, reynslu, sýn og þekkingu í bakpokanum sem auðgar mannlífið og opnar nýjar dyr ef við erum tilbúin að hlusta og gefa pláss. Fjölbeytileiki er undirstaða jákvæðrar þróunar sem allt samfélagið græðir á.

Nejra Mesetovic, formaður FUF, varabæjarfulltrúi og situr í fræðslu- og tómstundanefnd.