Bygging hjúkrunarheimilis og aðrar framkvæmdir

763

Íbúar hafa beðið lengi eftir byggingu nýs hjúkrunarheimilis enda þrjú ár síðan skrifað var undir samning við Heilbrigðisráðuneytið um bygginguna. Nú er hönnun og vinnu við útboðsgögn lokið og hefur beiðni verið send til samstarfsnefndar ríkisins um opinberar framkvæmdir (SOF) um að heimila útboð. Nefndin fundar fljótlega en framkvæmdin er á fjárlögum og verður vonandi hægt að auglýsa útboðið á næstu 2-3 vikum. Það er því stutt í að fyrsta skóflustungan verði tekin. 

Verðlaunatillagan frá BASALT arkitektum og EFLU verkfræðiskrifstofu.

Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins

Aðrar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins eru á áætlun. Framkvæmdin við Víkurbraut 24 sem mun hýsa velferðarþjónustu sveitarfélagsins er nú á lokastigi og mun verktakinn skila af sér í næstu viku. Stefnt er að því að hefja starfsemi í hluta húsnæðisins um leið og hægt er og að flutningi verði að mestu lokið um næstu mánaðarmót. Þá munu allir starfsmenn velferðarsviðs verða saman á einum stað um 30 starfsmenn í heildina. Þegar lóðarframkvæmdum verður lokið verður íbúum boðið í heimsókn og húsið vígt með formlegri athöfn.

Hrollaugsstaðir

Framkvæmdir eru nú að hefjast á Hrollaugsstöðum en áætlað er að hægt verði að taka íbúðirnar fimm í notkun fyrir áramótin næstu. Búið er að skrifa undir húsaleigusamninga við Vatnajökulsþjóðgarð sem mun leigja þrjár íbúðir af sveitarfélaginu og greiða fyrirfram út leigufé sem fékkst í gegnum átaksverkefni ríkisins vegna Covid, 43 m.kr. 

Mikligarður og Hofgarður

Mikligarður, nú er utanhúsframkvæmdum lokið, unnið er að hönnun innanhúss og hefjast framkvæmdir þar næsta haust.

Í Hofgarði í Öræfum verður opnað á milli leik- og grunnskólans og salerni endurnýjuð. Óskað verður eftir verðtilboðum í verkefnið en kostnaðaráætlun liggur fyrir.

Hafnarbraut og Sindrabær

Framkvæmdir við Hafnarbrautina hefjast fljótlega en búið er að semja við verktaka. Mikið rask mun fylgja framkvæmdunum enda er um aðalgötu bæjarins að ræða. Verkinu mun ljúka í september með malbikun.

Endurbætur í Sindrabæ voru einnig á fjárhagsáætlun ársins 2021. Bæjarráð hafnaði eina tilboðinu sem barst í verkið en hún var vel yfir kostnaðaráætlun. Framkvæmdastigið í sveitarfélaginu er hátt um þessar mundir og verktakar hafa nóg að gera. Útboðsgögnin eru tilbúin og því hægt að auglýsa útboð vegna endurbóta í Sindrabæ strax á næsta ári.

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri.