Ferðasumar

314

Nú fer ferðamönnum loksins fjölgandi eftir djúpan dal og langan. Bjartari tímar framundan fyrir ferðaþjónustuna og stoðþjónustu hennar sem eins og við höfum komist að raun um síðasta ár, teygir sig ansi víða.

Bólusettningar innanlands ganga mjög vel það væri óskandi og alls ekki úr vegi að ætla að ferðamannastraumurinn nálgist fyrra horf með haustinu. 

Almennt er fólk orðið ferðaþyrst og engin búinn að gleyma Íslandi.  Eldgosið á Reykjanesi hefur einnig hjálpað mikið við að minna á okkur út um víða veröld.

Nýsköpun í ferðaþjónustu

Það er ánægjulegt að sjá hversu margir ferðaþjónustuaðilar hafa verið hugmyndaríkir við að bjóða uppá hinnar ýmsu uppákomur og tilboð til að laða að íslenska ferðamenn og einnig gaman að sjá hvað landinn hefur verið duglegur að nýta sér þau. 

Ný ferðagjöf stjórnvalda mun án efa hvetja landann til að kanna nýjar slóðir eða endurnýja kynnin við landið í sumar.

Faraldurinn minnir okkur samt á að ekkert er sjálfsagt í þessum heimi og endalaust hægt að koma okkur á óvart. Við þurfum að vera skynsöm og eiga borð fyrir báru ef óvæntir atburðir dúkka upp eins og undanfarnir mánuðir hafa sýnt okkur.

Sjálfbær atvinnugrein

En nú fara vonandi í hönd bjartari tímar sem við tökum fagnandi, einnig sjáum við nú hversu ferðaþjónustan er okkur dýrmæt og mörg störf sem hún skapar. Landið okkar er gjöfult og ímynd okkar er dýrmæt, nýtum það skynsamlega með sjálfbærni að leiðarljósi. 

Kristján S. Guðnason, bæjarfulltrúi og formaður atvinnu- og menningamálanefndar.