Vettvangur dagsins

330

Í vikunni var haldinn íbúafundur í Öræfum þar sem rædd voru samgöngumál s.s. hugmyndir að breytingu á veglínu þjóðvegarins frá Morsá að Fagurhólsmýri, framtíðar uppbygging íbúabyggðar í tengslum við deiliskipulag í Skaftafelli, fyrirhugaðar framkvæmdir á húsnæði grunnskólans í Hofgarði, málefni ferðaþjónustunnar og atvinnumál ásamt því að kynna frumhönnun á nýjum hjóla- og göngustíg milli Svínafells og Skaftafells. Góð mæting var á fundinn auk þess sem hann var sendur út á Teams, en allt innan þeirra sóttvarnartakmarkanna sem voru í gildi á þriðjudaginn.

Vinna við deiliskipulag í Skaftafelli er vel á veg komið en stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráð Suðursvæðis kynntu sér svæðið og unnu að málinu í byrjun vikunnar.

Tíðindi vikunnar eru án efa stórheftar samkomutakmarkanir sem tóku gildi á gær 25. mars. Vonandi bera þessar aðgerðir sem gripið er til góðan árangur þannig að skóla- og frístundastarf geti verið með nokkuð eðilegum hætti eftir páskafrí nemenda og hægt verði að ljúka vorönn án mikillar röskunar. 

Dagurinn í dag heilsar með vetrarveðri, býður uppá snjó sem ungviðið mun án efa nýta til að stytta sér stundir í lengdu páskafríi. Nú er það í okkar höndum að hlúa að páskakúlunni eða kannski páskahreiðrinu svo að við komumst sem fyrst út úr þessu ástandi.

Ásgerður K. Gylfafóttir, formaður bæjarráðs