Björgunarsveitir á Íslandi hafa marg sannað sig í þau rúmu hundrað ár sem þær hafa verið starfandi bæði á sjó og landi. Innan raðað Slysavarnafélagsins Landsbjargar starfa þúsundir einstaklinga sem alltaf eru til taks þegar einhver vá steðjar að.
Fjölbreytt starfsemi
Hér í Sveitarfélaginu Hornafirði erum við heppin að hafa starfandi tvær öflugar björgunarsveitir; Björgunarsveitina Kára í Öræfum og Björgunarfélag Hornafjarðar á Höfn ásamt Björgunarbátasjóði sem rekur björgunarskipið Ingibjörgu. Auk þess er hér Slysavarnardeildin Framtíðin og Unglingadeildin Brandur.
Björgunarsveitir á svæðinu gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu og hafa byggt upp mikla þekkingu á ýmsum sviðum og hafa yfir öflugum tækjakosti að ráða til að sinna hinum margvíslegu verkefnum sem á borð þeirra berast.
Þjálfun og starfsemi
Þessa þekkingu sækir björgunarsveitafólk sér á ýmsann hátt, til dæmis með námskeiðum hjá Björgunarskólanum, æfingum á vegum björgunarsveitanna og í öðrum áhugamálum eins til dæmis og fjallamennsku og sleðamennsku.
Meðal verkefna sem björgunarsveitir hér á svæðinu koma að eru; verðmætabjörgun í óveðrum, vegalokanir fyrir Vegagerðina, umferðarslys, leitir að týndum einstaklingum, fjallabjörgun, björgun á sjó og björgunarleiðangrar á jökli. Þessi listi er langt í frá því að vera tæmandi.
Félagsstarf á breiðum grunni
En björgunarsveitir eru ekki einungis mikilvægur hlekkur í keðju viðbragðsaðila, heldur er þetta einnig mikilvægur félagsskapur fjölbreytts hóps fólks sem hefur áhuga á leit og björgun.
Björgunarsveitir eru ekki einungis félagsskapur fullorðins fólks því að auki er Unglingadeildin Brandur starfrækt á svæðinu þar sem fólk á aldrinum 15-18 ára hefur kost á að kynnast starfi björgunarsveita.
Það er því ljóst að björgunarsveitir eru mikilvægar fyrir samfélagið, ekki einungis í leit og björgun heldur einnig sem félagsstarf og lífið í sveitarfélaginu væri svo sannarlega einsleitara ef ekki væri fyrir þær.
Finnur Smári Torfason, varabæjarfulltrúi og formaður Björgunarfélags Hornafjarðar