Þá erum við lögð af stað inní árið 2021 og rútínan komin í gang eftir uppbrot jóla og áramóta. Fyrsti bæjarstjórnarfundur ársins var haldinn í gær 14. janúar og kom bæjarstjórn saman í Svavarssafni af því tilefni. Fundargerð bæjarstjórnar má nálgast á vef sveitarfélagsins á þessari slóð: https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/stjorn/fundargerdir og upptöku af fundinum á YouTube slóð sveitarfélagsins https://youtu.be/PCVrVdj4Kf8
Skipulagsmál
Að vanda voru skipulagsmál fyrirferðamikil á fundinum. Aðal- og deiliskipulagsbreytingar í Öræfum, Suðursveit, Nesjum og Lóni auk nokkurra erinda frá íbúum á Höfn sem huga að byggingum eða breytingum.
Velferðarnefnd
Kosið var í nýstofnaða velferðarnefnd sem verður til úr samruna félagsmálanefndar og heilbrigðis- og öldrunarnefndar. Þessi breyting er hluti af breyttu skipuriti sveitarfélagsins þar sem aukin áhersla er á samþættingu málaflokkanna ásamt fræðslu- og tómstundamálum. Þessir málaflokkar snerta málefni fatlaðra, barna og fjölskyldna en unnið er að bættri umgjörð um þessa þjónustu með breytingum á húsnæðinu við Víkurbraut 24 sem áður hýsti leikskólann Krakkakot.
Framkvæmdir
Breytingar á Víkurbraut 24 ganga vel og verður það stór áfangi þegar hægt verður að flytja inn aftur með þá fjölbreyttu þjónustu sem þar mun verða. Félagsmálastjóri, fræðslustjóri og þeirra starfsfólk munu koma sér fyrir þar. Heimaþjónustudeild og þjónusta við fatlað fólk mun fá nýja og fyrsta flokks aðstöðu sem beðið hefur verið lengi.
Fráveitumál
Hreinsivirkið í Óslandi var loksins tekið í notkun í lok síðasta árs og var það stór áfangi. Nú er unnið að uppfærslu áætlanna fyrir næstu áfanga í fráveitumálum og umsókn um styrk til ríkisins en ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa nú innspýtingu í þennan málaflokk sem sveitarfélaögin hafa kallað eftir lengi.
Hér hef ég tæpt á nokkrum atriðum sem unnið er með þessa dagana en þetta er aðeins sýnishorn af því sem við erum að vinna að þessa dagana. Ég hvet þig lesandi góður til að fylgjast með bæði á YouTube og heimasíðu sveitarfélagsins https://www.hornafjordur.is/
Einnig erum við bæjarfulltrúar alltaf tilbúin til að taka samtalið og símtalið.
Ásgerður K. Gylfadóttir, formaður bæjarráðs