Jólin að renna í garð

307

Í dag eru sex dagar til jóla og margir hverjir á þönum við undirbúning jólanna! Hver og ein jólahátíð er sérstök þar sem breytingar verða í lífi okkar og á fjölskyldunni ár frá ári. Börn fæðast, fjölskyldumeðlimir falla frá, fólk tekur saman eða skilur o.s. frv. En í ár erum við öll að upplifa öðruvísi jól þar sem heimsfaraldur og sóttvarnareglur leggja línurnar að miklu leyti.

Flest höfum við örugglega undirbúið jólin að einhverju ráði í gegnum tölvuna, skoðað og jafnvel keypt jólagjafir á netinu. Einnig hafa opnað nýjar verslanir á Höfn á síðustu vikum sem vonandi njóta þess með þeim sem fyrir voru að íbúar eru meira heima við og versla í heimabyggð fyrir þessi jól.

Jólakúlan

Almannavarnir hafa beðið okkur að fara með gát yfir hátíðirnar og skilgreina okkar jólakúlur með ekki fleiri en tíu einstaklingum (fæddum fyrir 2005) og láta kúlurnar ekki skarast ef fjölskyldur eru stórar.

Þetta kann að vera erfitt fyrir marga en þá er gott að geta nýtt tæknina og notað myndsímtöl til að komast nær sínum nánustu þrátt fyrir takmarkanir. Íbúi á hjúkrunarheimilinu getur t.d. hitt stórfjölskylduna í gegnum myndsímtöl ef sá sem heimsækir hann tekur með sér spjaldtölvu og tengist í heimsókninni. Heima getum við opnað pakkana með aðstandendum sem eru staddir hvar sem er í heiminum ef við notum tölvutæknina.

Jólin mín

Fjölskyldan mín verður dreifð um landið um jól og áramót. Höfn, Reykjavíkursvæðið, Akureyri, Ísafjörður, Grímsnesið, London, og Kolding. Við verðum fjögur þessi jól en með síma og tölvu okkur við hlið svo við getum heilsað uppá þá sem ekki verða með okkur þrátt fyrir fjarlægðir.

Ég vænti þess að jólin muni endurnæra mig og mína með góðum mat, svefni, samveru og lestri/sjónvarpsglápi í okkar litlu jólakúlu.

Farið varlega

Kæru sveitungar, farið varlega – við skulum muna að jólin eru ekki síst hugarástand. Ræktum kærleikann innra með okkur sjálfum, hann mun vaxa og dafna svo við getum gefið af okkur til okkar nánustu og samborgaranna. Það getur verið tækifæri í því að fresta jólaboðunum til betri tíma, hlúa að kjarnanum og þeim sem standa þér næst.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Kærar þakkir til ykkar fyrir árið sem er að líða með öllum þeim áskorunum sem það hefur fært okkur – megi nýtt ár færa okkur öllum kærleika og ný tækifæri!

Ásgerður K. Gylfadóttir, oddviti Framsóknarmanna í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar